Þrjú útköll það sem af er degi

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur það sem af er degi sinnt þremur útköllum.

  • Thyrla-og-skemmtiferdaskip

8.9.2023 Kl: 13:41

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur það sem af er degi sinnt þremur útköllum. Eitt þeirra var vegna bráðra veikinda um borð í farþegaskipi norður af Horni, annað vegna rútuslyss í nágrenni Blönduóss og þriðja vegna veikinda á Norðvesturlandi.


Á sjötta tímanum í morgun var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna rútuslyss við Blönduós og hélt þangað á mesta forgangi. Þrír voru fluttir með þyrlunni á Landspítalann í Fossvogi.


Á sama tíma var hin þyrluvaktin að annast útkall vegna bráðra veikinda um borð í skemmtiferðaskipi sem statt var úti fyrir Vestfjörðum. Læknir og sigmaður þyrlunnar fóru um borð í skemmtiferðaskipið og undirbjuggu sjúklinginn sem var að lokum hífður um borð í þyrluna og fluttur til Reykjavíkur.


Á tíunda tímanum var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar á Norðvesturland vegna veikinda og flutti sjúkling á Landspítalann frá Blönduósi. Útkallið var ótengt rútuslysinu fyrr um morguninn.


Thyrla-og-skemmtiferdaskipSkemmtiferðaskipið séð úr flugstjórnarklefanum.