Þyrlur, Þór og björgunarsveitir kallaðar út vegna flutningaskips í vanda

Betur fór en á horfðist.

  • EF-AVA

24.10.2022 Kl: 14:57

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, áhöfnin á varðskipinu Þór og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum voru kallaðar út á mesta forgangi á öðrum tímanum í dag þegar áhöfn erlends flutningaskips tilkynnti um eld um borð í skipinu sem statt var um 25 sjómílur suðaustur af Grindavík. Seinna kom í ljós að sprenging hafði orðið í vélarrúmi skipsins. Skipstjóri þess tjáði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að reykur kæmi frá vélarrúminu en enginn eldur væri sjáanlegur. Skipið varð vélarvana eftir atburðinn en engin slys urðu á fólki. Þrettán eru í áhöfn skipsins.

Fimm reykkafarar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru sömuleiðis kallaðir út og fóru með annarri þyrlu Landhelgisgæslunnar á staðinn. Skipið er 7500 tonna erlent flutningaskip og var á leið með farm til landsins.

Áhöfn flutningaskipsins náði tökum á ástandinu fljótlega eftir að þyrlur Landhelgisgæslunnar komu á staðinn og þurftu reykkafarar slökkviliðsins ekki að fara um borð. Í kjölfarið var ákveðið að afturkalla þyrlurnar sem og viðbragð björgunarsveita. Búið er að reykræsta skipið. Varðskipið Þór heldur sinni stefnu áfram að skipinu.