Þyrlusveitin annaðist útkall við afar krefjandi aðstæður

Skipverji hífður um borð í þyrluna

  • Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0141

3.2.2024 KL: 10:04

Þyrlusveitin annaðist útkall við afar krefjandi aðstæður í gærkvöld

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist krefjandi útkall á haf út í slæmu veðri í gærkvöldi. Óskað var eftir aðstoð þyrlusveitarinnar vegna veikinda sem upp komu í togara sem var á veiðum um 20 sjómílur út af Ísafjarðardjúpi. Vegna veðurs þurfti áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, að beita töluverðri útsjónarsemi í fluginu. Tekið var á loft frá Reykjavíkurflugvelli og varð að fljúga með fram ströndu til móts við skipið en þangað var áhöfn þyrlunnar komin um klukkan 21:00. Þar voru aðstæður erfiðar sökum vinds og éljagangs en þrátt fyrir það gekk vel gekk að hífa skipverjann um borð í þyrluna. Áhöfnin fór að því búnu inn á Ísafjörð til eldsneytistöku og þaðan var maðurinn fluttur til Reykjavíkur þar sem hann komst undir læknishendur.

Útkall sem þetta krefst mikils skipulags áhafnarinnar og varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem miðla upplýsingum um aðstæður og halda utan um ýmis önnur mál svo flugið gangi sem best fyrir sig.