Viðbragð vegna hamfara í Grindavík

Þyrlusveit, áhöfnin á Þór, séraðgerðasveit og varðstjórar haft í nógu að snúast.

  • _90A8538-Enhanced-NR

14.01.2024 Kl: 21:42

Óskað var eftir því að áhöfnin á varðskipinu Þór héldi í átt til Grindavíkur snemma í morgun þegar jarðhræringarnar norður af Grindavík hófust. Dróni varðskipsins hefur meðal annars verið notaður til að meta aðstæður í bænum og í nágrenni hans og komið upplýsingum til samhæfingarmiðstöðvar almannavarna í Skógarhlíð.

Þá var áhöfnin beðin um að fara á léttbát varðskipsins til að opna fyrir brunahana við smábátahöfnina og flytja mannskap sem sendur var með þyrlu um borð í varðskipið svo hægt væri að flytja hafnarbát bæjarins til Þorlákshafnar. Áhöfnin á TF-GNA flutti mennina út í varðskip.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur flogið þrisvar sinnum yfir svæðið frá því í morgun og verið í viðbragðsstöðu auk þess sem varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og séraðgerðasveit hafa einnig verið til taks.

Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar mennirnir voru fluttir um borð í varðskipið Þór, myndir af því þegar verið var að stjórna drónanum frá varðskipinu og einnig myndir sem teknar voru úr þyrlu Landhelgisgæslunnar af Árna Sæberg, ljósmyndara Morgunblaðsins þegar gosið var nýhafið í morgun.

IMG_5104Gosið séð frá varðskipinu. Mynd: Sævar Már Magnússon. 

IMG_5107Dróna stjórnað.