Ráðist til uppgöngu í færeyskan togara - inni í íslenskri lögsögu án lögboðinna tilkynninga

Mánudagur 19. júní 2006.

Á meðfylgjandi mynd sjást fjórir menn úr áhöfn varðskipsins Óðins fara um borð í færeyska togarann Sancy í nótt. Skipið var þá á 9 sjómílna ferð og hafði skipstjórinn neitað að hlýða fyrirmælum skipherra varðskipsins. 

Áhöfn Óðins stóð Sancy að því að vera inni í íslensku efnahagslögsögunni án þess að hafa sent tilkynningar til Landhelgisgæslunnar eins og krafist er í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 22/1998. 

Skipstjórinn neitaði að hlýða fyrirmælum skipherra varðskipsins um að stöðva skipið og var þá gripið til þess ráðs að ráðast um borð í skipið á ferð.  Skipið hefur engin veiðileyfi í íslenskri efnahagslögsögu og var með slökkt á fjareftirlitsbúnaði sem þó er um borð. Skipstjórinn hætti öllum mótþróa eftir að menn úr áhöfn Óðins voru komnir um borð.

 

Þyrla Landhelgisgæslunnar, Sif, flaug í nótt með tvo skipstjórnarmenn austur fyrir land og setti um borð í varðskipið Óðinn og þaðan fóru þeir á léttbát varðskipsins yfir í Sancy.  Þeir leystu menn úr áhöfn Óðins af en varðskipið hélt síðan áfram ferð sinni.  Skipstjórnarmennirnir sjá til þess að Sancy komi til hafnar á Austfjörðum þar sem mál skipstjórans verður rannsakað frekar af lögregluyfirvöldum.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Mynd: Vala Agnes Oddsdóttir.