Þyrla Landhelgisgæslunnar fann manninn á Hábungu

Mánudagur 9. maí 2011

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 18:52 í kvöld eftir að fjarskiptamiðstöð lögreglunnar óskaði eftir aðstoð við leit að týndum manni í Esju. Var maðurinn í símsambandi en var orðinn þróttlítill og villtur.  Óskað var eftir að þyrlan myndi leita frá Móskarðshnjúkum og vestur að Hábungu. Fór þyrlan í loftið kl. 19:21 og var byrjað að leita austast á gönguleiðinni og  leitað var vestur með henni.  

 Kl. 1953 sást maðurinn frá þyrlunni við vörðu efst á Hábungu. Lent var skammt frá honum og stýrimaður og læknir fóru til mannsins og studdu hann yfir í þyrluna. Var maðurinn þá orðinn mjög þrekaður og illa áttaður. Farið var að nýju í loftið kl. 19:58 og lent við Landspítalann í Fossvogi kl. 20:06 þar sem maðuriinn var fluttur til aðhlynningar.