Slasaður vélsleðamaður sóttur með þyrlu

Laugardagur 8. apríl 2006. 

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 15:28 vegna vélsleðaslyss norð-vestur af Strúti norðan Mýrdalsjökuls. Vélsleðamaður hafði slasast við að falla 4-5 metra fram af hengju.

 

Sif, björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, fór í loftið kl. 16 og var komin yfir slysstaðinn um 40 mínútum síðar.  Slysstaður var innarlega í djúpu gili og ekki aðgengilegur þyrlu og lenti þyrlan því um 500 metra frá slysstaðnum kl. 16:55. Þaðan fóru stýrimaður og læknir í áhöfn þyrlunnar á slysstaðinn með vélsleðamönnum sem voru á svæðinu.

 

Félagar hins slasaða höfðu í millitíðinni komið honum fyrir á sleða og lagt af stað til móts við þyrluna.  Eftir um 10 mínútna sleðaferð komu læknir og stýrimaður að hinum slasaða sem. Ekið var með hann á sleðanum í átt að Strúti og fundinn heppilegur lendingarstaður fyrir þyrluna. Hinn slasaði var kominn um borð í þyrluna kl. 17:35 og var hann fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Reykjavík.

 

Dagmar Sigurðardóttir

lögfræðingur/upplýsingaftr.