Samningur við Landmælingar um aukna notkun landupplýsinga við björgunarstörf

Þriðjudagur 4. apríl 2006.

Fyrir helgina var undirritað samkomulag milli Landmælinga Íslands og Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð um aukna notkun landupplýsinga við björgunarstörf.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu segir:

Til þessa hafa venjuleg landakort verið notuð, en með samkomulaginu er stefnt að því að auka notkun á  stafrænum kortum, gervitunglamyndum og öðrum landupplýsingum sem Landmælingar Íslands hafa yfir að ráða. Gögnin munu þannig nýtast þeim sem kallaðir eru út vegna slysa, eldsvoða, löggæslu, leitar, björgunar og náttúruhamfara hvort sem er á landi, sjó eða í lofti. Samstarf þetta er þróunarverkefni í þágu almannaöryggis og stendur yfir í 6 mánuði.

 

Þeir sem að samkomulaginu standa munu vinna að því að innleiða kort og aðrar stafrænar landupplýsinga frá Landmælingum Íslands til notkunar í gagnagrunn Neyðarlínunnar 112, Fjarskiptamiðstöðvar lögreglu, Vaktstöðvar siglinga, Samhæfingarstöðvarinnar og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Markmið þessa er að bæta og auka upplýsingar til viðbragðsaðila auk þess sem viðbragðsaðilar skuldbinda sig að miðla til Landmælinga Íslands athugasemdum sem berast vegna gagnanna svo sem um örnefni, vegi eða mannvirki.

 

Samkomulagið undirrituðu Magnús Guðmunsdson frá  Landmælinum Íslands, Þórhallur Ólafsson frá Neyðarlínunni, Jón Gunnarsson frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Georg Kr. Lárusson frá Landhelgisgæslunni. 


Frá vinstri: Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Þórhallur Ólafsson framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.