Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í flugdeginum

  • NC2009_WEEK2_DOUG_ELSEY_PHOTO__104

Sunnudagur 11. september 2011

Landhelgisgæslan tók í gær þátt í flugdeginum á Reykjavíkurflugvelli með ýmsum hætti og sýndi nokkra möguleika í notkun þyrlu Landhelgisgæslunnar. Byrjað var á að sýna notkun slökkvifötu (bamby bucket) var síðan farið í hefðbundna björgunarhífingu með börum og einum manni í lykkju og var eftir það bíl slingað (farið í krókflug) og sleppt. Var það stórkostleg sjón.  

Hér má sjá myndband Halldórs Sigurðssonar frá sýningunni.

Slökkvifatan er mikilvægt verkfæri við að ráða niðurlögum elda á svæðum sem farartæki slökkviliðsins geta ekki af einhverjum ástæðum nálgast. Slökkvifötunni  er dýft í vatn og þannig fyllt, skjólan er tæmd með því að rafknúinn loki í botni hennar er opnaður og vatnið streymir út. Hámarksburðargeta skjólunnar er um 2100 kg en hægt er að minnka og auka vatnsmagnið í fjórum þrepum frá tæplega 1500 kg upp í fyrrnefnd 2100 kg.  

Krókflug/Sling er mikil nákvæmnisvinna og nýtist við ýmsar aðgerðir og framkvæmdir s.s. gerð snjóflóðavarnargarða og síðast aðstoðaði Landhelgisgæslan Skógrækt ríkisins og Vini Þórsmerkur við stígaviðgerðir í Goðalandi.