Björgunarþyrlan Sif til taks á ný

Miðvikudagur 8. mars 2006.

Sif, minni björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, er komið í gagnið á ný eftir viðgerð.  Ófyrirséð viðhald gerði það að verkum að ekki var hægt að nota þyrluna um tíma en svo óheppilega vildi til að á sama tíma er stærri björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar í mjög viðamikilli skoðun, svokallaðri 3000 tíma skoðun, sem gert er ráð fyrir að ljúki í seinni hluta þessa mánaðar.

Eftir prófun kl. 21 í gærkvöldi var Sif til taks á ný.  Landhelgisgæslan hefur í millitíðinni treyst á danska sjóherinn og Varnarliðið en þyrlur frá Varnarliðinu og danska varðskipinu Triton hafa komið til bjargar á meðan þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið óvirkar. Landhelgisgæslan er með samstarfssamninga bæði við Varnarliðið og danska sjóherinn um gagnkvæma aðstoð við leit og björgun.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.