Rúnar vélstjóri kveður Landhelgisgæsluna eftir 17-18 ára starf

Miðvikudagur 8. mars 2006.

Rúnar Jónsson vélstjóri á varðskipinu Ægi hætti nýlega störfum hjá Landhelgisgæslunni. Hann hóf störf á gamla Ægi sumarið 1959 og því eru liðin 47 ár frá því að hann kom fyrst til Landhelgisgæslunnar. Það telst til tíðinda þegar menn, sem hafa svo lengi tengst Landhelgisgæslunni, hætta störfum. Rúnar var 1. vélstjóri á varðskipinu Ægi þegar hann hætti en hafði einnig oft gegnt yfirvélstjórastarfinu.

Rúnar hóf nám í Vélskóla Íslands árið 1958 og lauk námi árið 1961.  Hans fyrsta starf hjá Landhelgisgæslunni var því sumarstarf milli fyrsta og annars bekkjar í Vélskólanum. Sumarið 1959 var gamli Ægir að mestu við síldarleit.  Þórarinn Björnsson var skipherra og yfirvélstjórarnir voru þeir Lárus Magnússon og Andrés Jónsson. 

Sumarið 1960 kom Rúnar svo til starfa á varðskipinu Þór en þá var meginverkefnið fiskveiðieftirlit og að verja 12 sjómílna Landhelgina.

Rúnar starfaði hjá ýmum útgerðum og öðrum vinnuveitendum bæði hérlendis og erlendis á árunum 1961-1989 og var því með fjölbreytta reynslu er hann kom að nýju til Landhelgisgæslunnar árið 1989. Hann fór strax á varðskipið Ægi og hefur starfað þar síðan.

Samanlagt hefur Rúnar starfað hjá Landhelgisgæslunni í um 17-18 ár og aðspurður um hvað sé minnisstæðast frá þessum tíma segir hann að það sé svo margt að það væri efni í langan texta.  Hann segist alltaf hafa haft gaman af starfi sínu hjá Landhelgisgæslunni og sér ekki eftir einum einasta degi sem fór í það enda hefur hann kynnst þar mörgum góðum félögum.

Landhelgisgæslan þakkar Rúnari vel unnin störf í þágu stofnunarinnar og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Kristján Þ. Jónsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Georg Kr. Lárusson forstjóri, Steinvör Gísladóttir ritari forstjóra, Rúnar Jónsson vélstjóri, Hafsteinn Hafsteinsson fyrrverandi forstjóri og Halldór Benóný Nellett skipherra á varðskipinu Ægi.  Fyrrverandi forstjóra var boðið til að skoða varðskipið Ægi eftir breytingar og endurbætur á því í Póllandi og því gat Rúnar kvatt tvo forstjóra á einu bretti í hádegisverði um borð í Ægi um það leyti sem hann lét af störfum.


Rúnar vélstjóri.  Mynd: Jón Páll Ásgeirsson.