Fékk óvænt að sjá bjargvættinn TF-LÍF á afmælisdaginn

  • TF-LIF_8625_1200

Mánudagur 29. júlí 2013

Í gær, sunnudaginn 28. júlí voru tíu ár síðan TF-LÍF fór í útkall til Vestmannaeyja og sótti þangað nýfætt barn sem varð fyrir miklum súrefnisskorti í fæðingu.

Afi stúlkunnar hafði nýverið samband við Landhelgisgæsluna og sagði hann að flugið hafi bjargað lífi stúlkunnar sem hlaut nafnið Viktoría Líf. Hafði hann mikinn áhuga á að koma stúlkunni á óvart á afmælisdaginn með því að sýna henni „bjargvættinn“ eða TF-LÍF. Var það auðsótt mál og tóku á móti henni þrír af fimm meðlimum áhafnarinnar sem fór í umrætt flug, þeir Benóný Ásgrímsson, flugstjóri, Magnús Örn Einarsson, stýrimaður og  Tómas Vilhjálmsson, flugvirki. Björn Brekkan Björnsson, flugstjóri og Hlynur Þorsteinsson, þyrlulæknir höfðu ekki tök á að vera á staðnum. Var vel tekið á móti Viktoríu Líf sem fékk að skoða nöfnu sína TF-LÍF sem hefur bjargað hundruðum mannslífa á þeim tíma sem hún hefur verið í notkun hjá Landhelgisgæslunni en hún kom fyrst til landsins árið 1995.