Talsverður erill hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar

Talsvert hefur verið um útköll á þyrlur Landhelgisgæslunnar það sem af er þessari viku. Í gær voru tvö útköll þar sem óskað var aðstoðar þyrlu. Fyrra útkallið var vegna lítillar erlendrar flugvélar með einn mann um borð. Vélin var rúmlega 200 sjómílur suður af landinu og átti í erfiðleikum vegna eldsneytis. Þyrla Landhelgisgæslunnar var í viðbragðsstöðu á Keflavíkurflugvelli en flugvélin lenti heilu og höldnu. Síðara útkallið var vegna sjúklings í Flatey á Breiðafirði sem læknar höfðu metið að þyrfti sem fyrst að komast undir læknishendur. Lenti TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar í Flatey rétt fyrir hálfsjö í gærkvöldi og var sjúklingurinn kominn undir læknishendur í Reykjavík rúmum 40 mínútum síðar.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst svo klukkan ellefu í morgun beiðni um þyrlu vegna sjúklings á Blönduósi sem koma þurfti undir læknishendur í Reykjavík. Þyrlan fór í loftið rúmum tíu mínútum síðar og hélt til móts við sjúkrabíl sem flutti sjúklinginn að Staðarskála í Hrútafirði. Þar var sjúklingurinn fluttur um borð í þyrluna og var lent með hann við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi rúmlega tólf á hádegi.