Heiðursskot

Sunnudaginn 10. júlí s.l. skutu starfsmenn sprengjudeildar Landhelgisgæslu Íslands 21 heiðursskoti með 5 sekúndna millibili til heiðurs rússnesku þjóðinni og vegna heimsóknar rússneska herskipsins Admiral Levchenko til Reykjavíkur.  Heiðursskotunum var skotið úr varðskipinu Tý, sem svar við 21 skoti frá hinum erlendu gestum sem skutu til heiðurs íslensku þjóðinni og fána hennar.

Tíðkast hefur sem virðuleg hefð milli þjóða að skjóta slíkum heiðursskotum til að sýna virðingu fyrir fána landsins og fólki þess.  Heiðursskotum er einnig skotið til heiðurs sérstökum opinberum viðburðum, konungsheimsóknum og forsetaheimsóknum, til minningar um mikilvægan sögulegan atburð og jafnvel við jarðarfarir ríkisarfa eða mikilvægrar persónu.

Heiðursbyssur Landhelgisgæslu Íslands eru sérstaklega hannaðar í þeim tilgangi að skjóta mörgum heiðursskotum í röð og eru þær breytt útgáfa af 40 mm Bofor byssu, sem er aðal varnarvopn um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar. 

Adrian King