Slasaður smalamaður sóttur með þyrlu

Sunnudagur 26. september 2004.

Neyðarlínan hringdi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 10:57 og gaf samband við björgunarsveitina Lífsbjörg í Álftaveri.  Þar fengust þær upplýsingar að smalamenn hefðu óskað eftir aðstoð þyrlu sem fyrst en ekki var vitað hvers vegna.  Björgunarsveitin ætlaði að afla frekari upplýsinga.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var þegar látin vita.  Neyðarlínan gaf síðan aftur samband við björgunarsveitina en þá bárust þær upplýsingar að smalamaður hefði slasast við fjallið Strút, rétt vestan við Hólmsárlón.  Hann hafði slasast við fall af fjórhjóli.

Þyrlan fór í loftið kl. 11:22 og var komin á staðinn kl. 12:05.  Þaðan var haldið 13 mínútum síðar og lent við slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi kl. 13:04.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.