Annað tundurdufl kemur upp með veiðarfærum Brettings

Sunnudagur 18. júlí 2004.

 

Klukkan 16:28 í gær hafði skipstjórinn á togaranum Brettingi samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna hlutar, hugsanlega tundurdufls, sem komið hafði upp með veiðarfærum skipsins er það var að veiðum í svokölluðum Rósagarði út af SA-landi.  Upplýsingunum var þegar komið til vakthafandi sprengjusérfræðings sem hafði síðan samband við skipstjóra togarans.  Eftir stutt samtal var hægt að staðfesta að um sprengjuhleðslu úr bresku tundurdufli væri að ræða.  Til að gæta fyllsta öryggis var skipstjóranum ráðlagt að halda til hafnar.  Tveir sprengjusérfræðingar fóru með flugvél til Egilsstaða og þaðan til Fáskrúðsfjarðar en þangað var togarinn væntanlegur. 

 

Klukkan 23:45 kom Brettingur inn á fjörðinn og sprengjusérfræðingarnir voru teknir um borð með léttbát frá togaranum.  Strax kom í ljós að um 135 kílógramma sprengjuhleðslu úr bresku tundurdufli var að ræða.  Tunna sprengjuhleðslunnar var illa farin, opin að hluta og sprengiefnið bert og óvarið.  Þó svo að forsprengjan væri ekki til staðar var hluti af sprengiefni hennar enn í hólfi forsprengjunnar.  Of hættulegt þótti að reyna að fjarlægja það sem eftir var af forsprengjunni um borð í togaranum og var því haldið til hafnar þar sem sprengjuhleðslan var tekin í land í samvinnu við lögregluna á staðnum.  Lögreglan lokaði hafnarsvæðinu og fylgdi síðan sprengjuhleðslunni á öruggt svæði utar í firðinum þar sem hægt var að eyða henni.  Sprengjuhleðslan var síðan brennd, sem er venjuleg aðferð fyrir svo mikið magn af TNT sprengiefni, þar sem sprenging, sérstaklega í þröngum firði mundi valda óþægindum fyrir íbúa fjarðarins vegna höggbylgju og hávaða.

 

Brettingur kom með svipað dufl, nokkuð stærra, til Seyðisfjarðar 2. júlí sl. og hafði áhöfnin á orði þegar þeir héldu aftur til veiða hvort þeir væru ekki búnir með tundurduflakvótann í ár eða hvort sprengjusérfræðingarnir vildu ekki bara koma með ef ske skyldi að þeir fengju þriðja duflið.

 

Rósagarðurinn var kallaður svo af skipstjórum þýskra kafbáta vegna hins mikla fjölda tundurdufla sem þar var lagt.  Umfangsmiklar tundurduflalagnir Breta fóru fram á árunum 1940 til 1943 sem hluti af hinni svokölluðu SN aðgerð, þar sem yrir 90 þúsund tundurduflum af ýmsum gerðum var lagt í sjó á svæðinu.

 

Sjá meðfylgjandi kort af tundurduflalögnum út af SA-landi og myndir af tundurduflinu sem kom upp með veiðarfærum Brettings.

 

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar