Einn maður lést og fimm slösuðust í vélsleðaslysi í Eyjafirði - Björgunarsveitir og Landhelgisgæslan fluttu slasaða á sjúkrahús

Mánudagur 3. maí 2004.

Einn maður lést og fimm slösuðust í vélsleðaslysum í Eyjafirði í gær. Björgunarsveitir á Norðurlandi fluttu þrjá slasaða á sjúkrahús en þyrla Landhelgisgæslunnar sótti tvo þeirra og flutti til Akureyrar.

Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 16:50 í gær vegna sex vélsleðamanna sem lent höfðu í slysi í Gönguskarði sem liggur á milli Garðsárdals og Fnjóskadals.  Þyrlan var þá stödd á Ísafirði tilbúin að halda af stað í átt til selveiðiskipsins Havsel sem leki hafði komið að 355 sjómílur norð-norð-austur af Akureyri. 

TF-LIF fór fljótlega af stað í átt að slysstaðnum en þegar til kom var veður of slæmt svo þyrla gæti athafnað sig á vettvangi.  Þá var haldið til Akureyrar þar sem áhöfnin beið eftir að aðstæður bötnuðu.

Um kl. 4:30 í morgun fór þyrlan frá Akureyrarflugvelli en þá hafði veður lagast nokkuð. Fyrst var náð í slasaðan mann sem var í björgunarsveitarbíl ofarlega í Garðsárdal og hann fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.  Síðan var annar slasaður maður sóttur en hann var í snjóbíl björgunarsveitarmanna á svæðinu.Björgunarsveitum tókst að sækja aðra slasaða og koma þeim á sjúkrahús. 

Eftir að búið var að flytja alla slösuðu vélsleðamennina fór TF-LIF þrjár ferðir á slysstað til að sækja björgunarsveitarmenn sem verið höfðu að störfum frá því kl. 17 daginn áður og flutti þá til Akureyrar. TF-LIF hélt aftur til Reykjavíkur kl. 9 í morgun.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.