Varðskipið Týr flutti slasaðan sjómann til Hafnar í Hornafirði

Sunnudagur 21. mars 2004.

Skipstjórinn á netabátnum Erlingi SF-65 tilkynnti kl. 15:15 á alþjóðlegri neyðarrás skipa, rás 16, að hann væri með slasaðan skipverja um borð. Hönd hans hafði klemmst á netaspili. Báturinn var þá staddur út af Tvískerjum.

Óskað var eftir aðstoð varðskipsins Týs við að koma skipverjanum til Hafnar í Hornafirði en þar beið sjúkraflugvél sem flytja átti hann til Reykjavíkur.

Léttbátur varðskipsins Týs var notaður til að flytja skipverjann, stýrimann netabátsins, um borð í varðskipið. Um borð í léttbátnum var lærður sjúkraflutningsmaður úr áhöfn varðskipsins.  Búið var að flytja stýrimanninn um borð í varðskipið Tý kl. 15:34.

Er varðskipið var komið út af Hornafirði kl. 17:35 var léttbátur sendur frá varðskipinu með stýrimanninn til Hafnar en þangað kom léttbáturinn kl. 17:50.   Þar beið sjúkrabíll sem flutti hinn slasaða út á flugvöll.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.