Leit að björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar árangurslaus

Miðvikudagur 3. mars 2004.

Áhöfn TF-SYN, flugvélar Landhelgisgæslunnar, fékk það verkefni í dag að leita að björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem tók út af flutningaskipinu Skaftafelli seint í gærkvöldi.

Tilgangur leitarinnar var bæði að reyna að bjarga verðmætum og koma í veg fyrir siglingahættu sem stafað getur af svo stórum hlutum á reki.

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar notuðu leitarforrit til að reikna út hugsanlegt rek og staðsetningu bátsins miðað við veður og sjólag.

TF-SYN fór í loftið kl. 11:33. Svæðið sem leitað var á var frá Hópsnesi við Grindavík og austur að Knarrarósi.  Leitað var u.þ.b. 9 sjómílur út frá ströndinni. TF-SYN lenti aftur við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 14:57 eftir árangurslausa leit. 

Tómas Helgason flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni tók meðfylgjandi myndir í fluginu.  Önnur þeirra er af Selvogsvita en hin af áhöfn TF-SYN í þessu tiltekna flugi.

Á áhafnarmyndinni eru Tómas Helgason og Pétur Steinþórsson flugmenn, Einar H. Valsson og Magnús Örn Einarsson stýrimenn. Sem útkikksfólk komu 4 frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Þórður Bergsson, Hallbjörn Magnússon, Elísabet S. Kristjánsdóttir og Pétur Kristjánsson.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.