Sjómælingaverkefni á Suðurnesjum

Mánudagur 29. desember 2003.

Nýlega voru sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar í mælingaleiðangri á Suðurnesjum.  Verið var að staðsetja alla hafnarvita og innsiglingavita/merki á svæðinu frá Vogum að Helguvík vegna endurútgáfu á korti nr. 361 sem er hafnarkort fyrir hafnirnar við Stakksfjörð. 

Það getur oft og tíðum verið brösótt fyrir sjómælingamenn að komast að vitum og ljósum.  Þau eru á húsþökum, uppi í háum möstrum og á endum flughálla og stórgrýttra hafnargarða svo eitthvað sé nefnt.  Þegar mælingamennirnir voru staddir í Vogum blasti það við þeim að eitt innsiglingaljósið var á gafli fiskvinnsluhúss en þak þess var bratt og hált vegna snjókomu og í alla staði mjög óárennilegt að reyna að komast með GPS staðsetningartæki þangað. 

Sjómælingamenn höfðu tekið eftir körfubíl ásamt áhöfn sem var að störfum í bænum. Datt þeim í hug að athuga hvort stjórnendur körfubílsins væru reiðubúnir að veita smá aðstoð í þágu öryggismála sjófarenda.  Þarna reyndust tveir starfsmenn Hitaveitu Suðurnesja vera á ferð og voru þeir ekkert nema liðlegheitin.  Það sem eftir fylgdi var einhver sú þægilegasta aðstaða sem mælingamennirnir hafa notið við sambærileg verkefni.  Þeim var lyft upp að ljósinu þar sem staðsetningartækinu var komið fyrir og það látið hnita sig inn í 15 mínútur.  Á meðan var beðið inni í hlýjum bílnum.  Að því loknu var tækið sótt á sama hátt.  Sjómælingamennirnir kunna þessum hjálpsömu og greiðviknu starfsmönnum Hitaveita Suðurnesja bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Á meðfylgjandi myndum, sem Björn Haukur Pálsson sjómælingamaður tók, má sjá Ásgrím Ásgrímsson deildarstjóra sjómælingadeildar að störfum ásamt starfsmanni Hitaveitu Suðurnesja. E.t.v. hafa börnin í Vogunum talið að þar væru jólasveinar á ferð enda sennilegast að menn sem athafna sig á húsþökum í desember séu í þeirri starfsgrein.

Dagmar Sigurðardóttir  /  Ásgrímur Ásgrímsson
fjölmiðlafulltrúi                deildarstjóri sjómælingadeildar