Björgunaræfingar þyrluáhafna í Aberdeen

Fimmtudagur 16. október 2003.

Haustin eru tími margvíslegra æfinga hjá Landhelgisgæslunni enda nauðsynlegt fyrir áhafnir varðskipa og loftfara Landhelgisgæslunnar að vera við öllu búnar fyrir veturinn og reyndar allt árið.  Hámarks flugdrægi stærri þyrlu Landhelgisgæslunnar,TF-LIF, er 625 sjómílur (1125 km) en hámarks flugdrægi minni þyrlunnar, TF-SIF, er 400 sjóm (720 km). Í björgunarflugum, jafnvel út fyrir efnahagslögsögu Íslands, er nauðsynlegt fyrir áhafnir þyrla Landhelgisgæslunnar að vera við öllu búnar í neyðartilfellum.   Bæði þurfa þær að vera reiðubúnar bjarga farþegum, jafnvel sjúkum eða slösuðum, og sjálfum sér ef eitthvað bregður út af.  Vegna þessa hafa þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar sótt námskeið hjá fyrirtækinu Rgit Montrose í Aberdeen á tveggja ára fresti en námskeiðin kallast ,,helicopter underwater escape training".  Í áhöfnum þyrla Landhelgisgæslunnar eru flugstjórar, flugmenn, skipstjórnarmenn, flugvirkjar og læknar.

Æfingarnar fara fram í þyrlulíkani sem er látið sökkva niður í sundlaug og felast í því að læra hvað á að gera ef þyrlan er að hrapa í sjó eða vatn.  Tryggja að beltin séu vel spennt, hjálmurinn sitji rétt og vera í réttri stöðu til að verða fyrir sem minnstu hnjaski þegar þyrlan lendir á haf- eða vatnsfletinum.  Síðan þarf að hafa aðra höndina á öryggisbeltinu til að vera sem fljótastur að ná sér úr því þegar á þarf að halda og hafa hina höndina við næstu útgönguleið eða í áttina að henni því hætt er við að menn ruglist í ríminu þegar þyrlan sekkur og veltur í sjónum. 

Þyrlulíkanið sekkur niður í vatnið og þegar það er komið á bólakaf byrjar það að snúast. Fyrir byrjendur getur þetta verið nokkuð skelfileg reynsla en í lauginni eru kafarar sem eru reiðubúnir að bjarga fólki út úr líkaninu ef því tekst það ekki af sjálfsdáðum.  Á námskeiðinu, sem stendur í tvo daga, er einnig farið í björgunarbátaæfingar og menn þjálfaðir í að bregðast við ýmsum uppákomum á sjó. 

Þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar fóru í tveimur hópum til Aberdeen.  Sverrir Erlingsson flugvirki tók myndir í fyrri ferðinni en í seinni ferðinni var Árni Sæberg ljósmyndari með í för og tók myndir bæði fyrir ofan og neðan vatnsborð.  Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. október sl. birtist skemmtileg frásögn hans af ferðinni. 

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi

Mynd: Árni Sæberg

Mynd: Árni Sæberg: Leiðbeinandinn, Ian, leggur línurnar.  

 

Mynd: Árni Sæberg: Inni í þyrlulíkaninu.  Björn Brekkan flugmaður, J. Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri og Sigurður Heiðar Wiium flugmaður tilbúnir í slaginn.

Mynd: LHG/Sverrir Erlingsson flugvirki: Þyrlulíkanið sekkur með nokkra áhafnarmeðlimi innanborðs.

Mynd: LHG/Sverrir Erlingsson flugvirki: Þarna sést hvernig þyrlulíkanið byrjar að snúast.  Það fer alveg á hvolf og snýst svo aftur í rétta stöðu.  Mikilvægt er að vera búinn að átta sig vel á hvar næsti útgangur er þegar maður þarf að bjarga sér út úr líkaninu á bólakafi.

Mynd: Árni Sæberg: Kafarar frá Rgit Montrose eru tilbúnir að bjarga þeim sem ekki komast út af sjálfsdáðum. Öllum í þyrluáhöfninni tókst það.

Mynd: Árni Sæberg: Hópurinn úr seinni ferðinni stillti sér upp fyrir blaðamann og ljósmyndara frá fréttablaði í Aberdeen sem sagði frá komu hópsins og tók viðtal við Hafstein Heiðarsson flugstjóra.

Mynd: LHG/Sverrir Erlingsson flugvirki:  Friðrik Höskuldsson skipstjórnarmaður í þyrluáhöfn æfir notkun björgunarbáta.  Báturinn var á hvolfi og þurfti að snúa honum við og koma sér um borð. Ekki vandamál fyrir vana menn.

Mynd: Árni Sæberg: Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri syndir baksund í átt að bakkanum.