Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaðan rússneskan sjómann

Mánudagur 7. júlí 2003.

Umboðsmaður rússneska togarans Marshal Krylov hafði samband við Landhelgisgæsluna í gærkvöldi og lét vita að togarinn væri á leið til Reykjavíkur með slasaðan skipverja.  Togarinn var þá staddur 240 sjómílur suðvestur af  Reykjavík.  Skipverjinn var með opið lærbrot og því óskað eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar sækti hann enda eins sólarhrings sigling til næstu hafnar.  Læknir í áhöfn TF-LIF taldi nauðsynlegt að maðurinn yrði sóttur.

Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 21:54 og fór þyrlan í loftið kl. 23:03.  Áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, var einnig kölluð út til að vera til taks á flugvelli ef á þyrfti að halda.

TF-LIF kom að togaranum kl. 0:47 og fór sigmaður með börur niður í skipið til að sækja hinn slasaða. Hífingum var lokið kl. 1:08.  Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 3:00.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands