Aron ÞH-105 sökk í morgun- TF-LÍF send til aðstoðar

Mánudagur 30. október 2002.

Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 6:20 í morgun vegna rækjubátsins Arons ÞH-105 en þá var kominn leki að bátnum og hann á reki 26 sjómílur norður af Grímsey.  Því var komið á framfæri að dælu vantaði um borð í bátinn.  Fimm mínútum síðar hafði Tilkynningarskyldan samband að nýju og lét vita að verið væri að athuga með dælur í Grímsey og að hraðbátur myndi sækja þær. 

Um kl. 6:30 fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þær upplýsingar frá Tilkynningarskyldunni að veður á svæðinu væri gott, hægviðri og þokkalega bjart.  Áhöfn Arons var á þessum tímapunkti bent á að láta nærstadda báta draga bátinn í átt að landi en vitað var að annar bátur var í 2 sjómílna fjarlægð frá honum.

Útgerðarmaður Arons hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 6:35 og óskaði eftir að varðskip drægi Aron að landi en það var ekki mögulegt þar sem ekkert varðskip var í grenndinni.

Þær upplýsingar fengust frá Tilkynningarskyldunni kl. 6:36 að slagsíða væri komin á bátinn og að 2 bátar væru á leið til hans, Svanur og Sæþór.  Verið var að athuga með björgunarbát frá Siglufirði og bát frá Grímsey með dælur. 

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 6:41 og fór hún í loftið kl. 7:20.  Um borð í þyrlunni voru tvær dælur sem fyrirhugað var að koma um borð í Aron.  Níu mínútum eftir flugtak barst tilkynning um að Aron væri kominn á hliðina og að allir skipverjar hefðu bjargast um borð í SæÞór EA-101.  Sökk báturinn stuttu síðar.

Sæþór EA-101 var kominn að Aroni hálftíma áður en báturinn sökk og var haft eftir skipstjóra hans að áhöfn Arons hafi ekki verið hætta búin.

Um kl. 7:35 var TF-LÍF snúið við og lenti hún við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 8:00.

Aron er 127 brúttólesta togbátur, smíðaður í Danmörku árið 1989 og var keyptur til Íslands árið 1998.  Hann var gerður út af Knarrareyri á Húsavík.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands