Neyðarflugeldi skotið upp án þess að hætta væri fyrir hendi

Föstudagur 30. ágúst 2002.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk nokkrar tilkynningar um neyðarflugeld á ellefta tímanum í gærkvöldi.  Tilkynningarnar voru nokkuð misvísandi en flugeldurinn var ýmist talinn hafa verið yfir Skerjafirði, vestur af Kársnesi eða í átt að Garðskaga.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út.  Í framhaldi af því var haft samband við Tilkynningarskylduna en þangað höfðu borist fjölmargar tilkynningar vegna flugeldsins og voru þær einnig nokkuð misvísandi. Er upplýsingar bárust um það frá lögreglunni, að tveir lögreglumenn, staddir á efstu hæð á Hótel Sögu, hefðu séð  blysið koma upp frá landi, var ákveðið að hætta við að senda þyrluna af stað.  Um kl. 23:34 var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynnt að lögreglan hefði fundið leifar af neyðarflugeldi á hafnarsvæðinu í Kópavogi en honum hafði augljóslega verið skotið upp stuttu áður.

Vegna þessa atviks var ekki eingöngu þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar kölluð út. Menn frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu fóru til leitar á þremur gúmmíbjörgunarbátum og starfsmenn stjórnstöðva Landhelgisgæslunnar og Tilkynningarskyldunnar auk lögreglunnar höfðu af þessu talsverða fyrirhöfn. Ekki þarf að fjölyrða um þá hættu og þann kostnað sem skapast af framferði sem þessu.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands.