Fjármálaráðuneytið úrskurðar að hafna beri beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af nætursjónaukum

Miðvikudagur 14. ágúst 2002.

Landhelgisgæslan sótti í fyrra um niðurfellingu aðflutningsgjalda af nætursjónaukum og hafnaði Tollstjórinn í Reykjavík þeirri beiðni.  Sú ákvörðun var kærð til úrskurðar sama embættis sem úrskurðaði að hafna bæri beiðni Landhelgisgæslunnar.  Úrskurður Tollstjórans í Reykjavík var þá kærður til fjármálaráðuneytisins sem hefur nú staðfest hann.

Úrskurðurinn byggir á því að þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar sé ekki björgunarsveit í skilningi laga og reglugerða sem kveða á um niðurfellingu aðflutningsgjalda af björgunarbúnaði.  Í úrskurðinum segir m.a.:

,,Það er kveðið á um það í 11. tl. 6. gr. tollalaga að tollur skuli lækka, falla niður eða endurgreiðast af björgunarbúnaði og björgunartækjum, enda liggi fyrir samþykki landssamtaka björgunarsveita á að búnaðurinn verði einungis nýttur til í starfsemi björgunarsveita.  Nánar er kveðið á um skilyrðið um samþykki landssambands björgunarsveita í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum þar sem áskilið er að samstarfsnefnd um endurgreiðslu aðflutningsgjalda hafi yfirfarið og fallist á beiðni um undanþágu aðflutningsgjalda.  Samstarfsnefndin er sett á fót með reglum fjármálaráðuneytisins um framkvæmd endurgreiðslu aðflutningsgjalda og virðisaukaskatts af björgunartækjum, hinn 21. febrúar 1991.  Í 2. gr. reglnanna er kveðið á um að nefndin skuli skipuð fulltrúum landssamtaka björgunarfélaganna þriggja og fulltrúum bíla- og vélanefndar.  Í dag hafa landssamtök björgunarfélaganna sameinast undir merkjum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Það er mat ráðuneytisins að fyrirvarinn um samþykki samstarfsnefndarinnar komi til athugunar þegar hugtakið ,,björgunarsveit" í 11. tl. 6. gr. tollalaga er skýrt.  Ráðuneytið telur að skilyrðið um samþykki nefndarinnar, þar sem landssamtök björgunarsveita eiga fulltrúa, feli í sér afmörkun þeirra björgunarsveita sem geta sótt rétt samkvæmt ákvæðinu, þ.e. átt sé við þær sveitir sem starfa innan vébanda Slysavarnarfélagsins Landsbjargar en félagið gegnir eins og áður sagði hlutverki landssamtaka björgunarsveita.  Samkvæmt 3. gr. reglna fjármálaráðuneytisins er afgreiðsla nefndarinnar bundin því skilyrði að skrifleg umsókn berist frá landssamtökum björgunarsveita.  Sá áskilnaður styður þá túlkun sem ráðuneytið setur fram í úrskurði þessum. 

Með vísan í framantalið og að öðru leyti með vísan til hins kærða úrskurðar er hann staðfestur."

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands