Samverði 2002 lýkur í dag

Sunnudagur 30. júní 2002.

Skipulag æfingarinnar Samvörður 2002 hefur gengið upp að mestu leyti þrátt fyrir að veður hafi á köflum sett strik í reikninginn hvað þyrluflug varðar. Stjórnendur og þátttakendur hafa þannig fengið þjálfun í að bregðast við breyttum aðstæðum og mál manna að af æfingunni megi draga mikilvægan lærdóm.

Fjölmiðlafólki, innlendu og erlendu, var boðið að kynnast æfingunni af eigin raun í gær.  Farið var í þyrluflug frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja  með Chinook þyrlu þjóðvarðliðs Pensylvaníu.  Sýnd var rústabjörgun í fiskvinnsluhúsi niður við höfn þar sem aðstæður höfðu verið gerðar eins raunverulegar og mögulegt var. Þangað komu forstjóri Landhelgisgæslunnar og aðmírállinn á Keflavíkurflugvelli til að kynna sér aðstæður en þeir eru framkvæmdastjórar æfingarinnar.  Varnarmálaráðherra Belgíu var með þeim í för og heilsaði upp á samlanda sína sem voru þar að störfum. 

Í Vestmannaeyjum bar einnig að líta hús sem hafði hrunið og fjölda hlutverkaleikenda sem höfðu fengið fyrirmæli um hvaða áverka þeir höfðu orðið fyrir og var búið að farða þá í samræmi við það.  Leikhæfileikar hinna slösuðu vöktu athygli enda var hluti þeirra félagar í leikfélagi í leikfélagi í Vestmannaeyjum og þjáðust af mikilli innlifun.  Fengu slasaðir flutning til Þorlákshafnar þar sem gert var að sárum þeirra.  Sumir týndu þó lífinu og var m.a. eitt bráðlifandi lík með fjölmiðlafólki í för er haldið var til Þorlákshafnar með þyrlu eftir heimsókn til Vestmannaeyja í gær.

Í dag hefur verið lögð áhersla á að ljúka verkefnum og ákveðið hefur verið að hraða samantekt og flutningi þátttakenda frá Vestmannaeyjum vegna óhagstæðrar veðurspár.  Samkvæmt skipulaginu á æfingunni formlega að ljúka um kl. 18 í dag.

Landhelgisgæslan vill koma á framfæri þakklæti til allra þátttakenda sem hafa lagt sitt af mörkum til að gera æfinguna sem veglegasta þ.e. undirbúningsaðilum, skipuleggjendum, þáttakendum í björgunarstörfum og hlutverkaleikendum. 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands