Loðnuvertíðin 2002-2003 hófst á miðnætti

Fimmtudagur 20. júní 2002.

 

Á miðnætti hófust loðnuveiðar á vertíðinni 2002-2003.  Alls hafa 47 erlend loðnuskip tilkynnt sig inn í íslensku efnahagslögsöguna.   Þar af eru 35 norsk skip tilbúin til veiða og 8 á biðlista, tvö færeysk og eitt grænlenskt skip.  Samkvæmt reglugerð um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 2002-2003, er Norðmönnum ekki heimilt að hafa fleiri en 35 skip að veiðum samtímis innan lögsögunnar á tímabilinu 20. júní – 30. nóvember 2002 og ekki skulu fleiri en 10 færeysk skip stunda loðnuveiðar í lögsögunni samtímis.

 

Norðmenn mega veiða alls 48.587 lestir innan fiskveiðilögsögu Íslands á þessari loðnuvertíð, Færeyingar 30.000 lestir en Grænlendingar mega veiða það magn sem þeim er úthlutað af grænlenskum stjórnvöldum.  Í reglugerðinni er að finna nánari skilyrði fyrir veiðum og takmarkanir hvað varðar tíma og staðsetningu.

 

Athygli vekur hversu mörg erlend skip eru þegar komin á miðin þrátt fyrir að aflafréttir hafi ekki borist.  Ekki er kunnugt um neinar veiðar skipanna enn sem komið er.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands