Tilraun til ásiglingar á léttbát varðskipsins ÆGIS

Laugardagur 15. júní 2002.

Landhelgisgæslunni barst listi frá Siglingastofnun um að fjöldi skemmtibáta væri án haffæris og því í farbanni.  Vegna þessa var eftirlitsbátur varðskipsins ÆGIS sendur inn á Kollafjörð til eftirlits.  Eftirlitsbáturinn kom að nokkrum skemmtibátum úti í Þerney og þar af voru tveir án haffæris skv. lista Siglingastofnunar.  Ákveðið var að fara á svæðið og tilkynna skipstjórum bátanna að þeir mættu ekki vera á sjó og kanna málið betur.  Þegar viðræðum við umráðamenn bátanna var lokið, varð stýrimaður varðskipsins þess var að einn skemmtibátanna sigldi af stað og stefndi á mikilli ferð á eftirlitsbát varðskipsins.  Með snarræði tókst að forða ásiglingu með því að beita fyllsta vélarafli eftirlitsbátsins og bægja þannig hættunni frá. Að mati stýrimanns varðskipsins mátti litlu muna að þarna yrði stórslys.  Eftirlitsbáturinn veitti skemmtibátnum eftirför til að reyna að ná tali af skipstjóra en honum tókst að komast undan. Skipherra varðskipsins hringdi tvisvar í hann en hann hunsaði fyrirmæli en hélt þó að lokum til hafnar þar sem lögregla tók á móti honum.  Málið er í rannsókn hjá lögreglu.  Landhelgisgæslumenn hafa ekki lent í ásiglingartilraun síðan á þorskastríðsárunum og er málið litið alvarlegum augum af hálfu Landhelgisgæslunnar.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands