Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir slasaðan göngumann

Um hálftíuleytið í gærkvöld barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beiðni um þyrlu vegna fótbrotins göngumanns sem var fastur í fjalli fyrir ofan gönguleiðina í Naustahvilft ofan við Ísafjarðarflugvöll. Þyrla Landhelgisgæslunnar var komin í loftið um hálftíma síðar og hélt beint á Ísafjörð.

Þegar þyrla Landhelgisgæslunnar kom á staðinn voru björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningamenn komnir að manninum. Sat hann á syllu í verulegri hæð eða í um rúmlega 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Höfðu björgunarsveitarmenn hlúð að manninum og tryggt vettvang sem best fyrir grjóthruni sem var verulegt á staðnum og aðstæður allar erfiðar. Þá höfðu björgunarsveitarmenn einnig náð að setja upp öryggislínur til að unnt væri að flytja manninn niður fjallið með línum ef til þess kæmi.  

Sigmaður í áhöfn þyrlunnar seig beint niður til hins slasaða en vegna þess hve brattinn var mikill var erfitt að koma sjúkrabörum niður. Hins vegar auðvelduðu öryggislínur björgunarsveitarmanna sigmanninum að komast örugglega á vettvang. Var hinn slasaði hífður um borð í þyrluna í björgunarlykkju og flogið með hann til Reykjavíkur þar sem honum var komið á sjúkrahús.