Áramótaannáll LHG 2017

Verkefni LHG voru vægast sagt fjölbreytileg á árinu sem nú er að líða

Þótt ótrúlegt megi virðast er árið 2017 nánast á enda og nýtt ár handan við hornið. Árið sem nú er að líða hefur verið býsna tíðindaríkt í starfi Landhelgisgæslunnar og verkefnin sem starfsfólkið hefur fengist við verið bæði fjölbreytt og sum hver óvenju krefjandi.

Eitt skýrasta dæmið um þetta eru miklar annir hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar. Endanlegar tölur um fjölda útkalla á árinu 2017 verða birtar snemma á nýárinu en ljóst er að hann verður að minnsta kosti svipaður og metárið í fyrra þegar útköllin voru ríflega 250.

Af einstökum málum sem settu svip sinn á störf Landhelgisgæslunnar á árinu má nefna leitina að Birnu Brjánsdóttur og aðstoð við lögregluaðgerðir í tengslum við það hörmulega mál. Þá gegndu þyrlur Landhelgisgæslunnar mikilvægu hlutverki í aðgerðum vegna flóða á Suðausturlandi í haust. Stjórnstöð LHG skipulagði og stýrði erfiðri leit að erlendri skútu sem lenti í sjávarháska í sumar og hlutu starfsmenn þar sérstaka viðurkenningu bandaríska sjóhersins fyrir vikið. Nú á milli jóla og nýárs voru svo öll loftför Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna alvarlegs rútuslyss nærri Kirkjubæjarklaustri.

Þrjár stórar alþjóðlegar æfingar voru haldnar hérlendis sem rétt er að nefna sérstaklega. Í júní tók Landhelgisgæslan þátt í kafbátaeftirlitsæfingunni Dynamic Mongoose hér við land, í október komu svo sprengjusérfræðingar alls staðar að úr heiminum saman á sextándu Northern Challenge æfingunni. Í september efndu svo samtök strandgæslustofnana á norðurslóðum (ACGF) til leitar- og björgunaræfingarinnar Arctic Guardian. Þá má líka nefna stuðning við vísindastarf, til dæmis flutning á búnaði í Surtsey í tengslum við alþjóðlegt borverkefni og flug með vísindamenn vegna vöktunar á eldstöðvum.

Á síðasta degi ársins 2017 Landhelgisgæslan björtum augum fram á veginn og hlakkar til að takast á við þær áskoranir sem árið 2018 á eftir að bera í skauti sér. Landhelgisgæsla Íslands óskar landsmönnum öllum farsældar á nýju ári og þakkar auðsýnda velvild og stuðning í áranna rás.

Hér að neðan er stiklað á stóru í starfseminni á árinu 2017 eins og hún blasti við í fréttum á vefsíðunni okkar.

Janúar

Polar-Nanoq

Morðið á Birnu Brjánsdóttur í ársbyrjun varpaði dimmum skugga yfir allt þjóðfélagið. Mjög umfangsmikil leit var gerð að Birnu sem þyrlusveit og köfunarsveit Landhelgisgæslunnar tóku virkan þátt í. Leitinni lauk sunnudaginn 22. janúar þegar áhöfn TF-LIF og björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg fundu líkið af Birnu rétt vestur af Selvogsvita. Nokkrum dögum fyrr hafði þyrlan flutt sérsveitarmenn um borð í danska herskipið Tríton og grænlenska togarann Polar Nanoq.

Um miðjan mánuðinn hélt TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, til Grikklands til að sinna landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Til að byrja með voru bækistöðvar vélarinnar í Chania á Krít en síðari hluta tímabilsins var hún í Catania á Sikiley. Á meðan dvölinni þar stóð heimsóttu dagskrárgerðarmenn Stöðvar 2 áhöfnina og fylgdust með störfum hennar í tengslum við þáttaröð um Landhelgisgæsluna sem sýnd var í haust. TF-SIF kom aftur til Íslands í marslok en fór svo tvívegis aftur utan.

TF-SIF á flugvellinum í Catania á Sikiley.

Febrúar

Lengsta sjómannaverkfalli Íslandssögunnar lauk 19. febrúar en það hafði þá staðið í tvo mánuði. Þá var loðnuvertíðin komin á fullt og erlend skip ein um hituna. Nóg var að gera í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar við umsýslu vegna loðnuveiða erlendu skipanna sem flykktust á miðin. Þá sinnti varðskipið Týr venjubundnu eftirliti á miðunum til að tryggja að allt gengi vel og rétt fyrir sig.

Í febrúar vakti athygli þegar áhöfn flugvélarinnar TF-SIF kom auga á skip sem var á siglingu skammt suður af Pelópsskaga, syðsta hluta gríska meginlandsins. Þetta reyndist vera nýjasta skip íslenska fiskiskipaflotans, Kaldbakur EA-1, á heimleið úr skipasmíðastöð í Istanbúl í Tyrklandi. Undir lok ársins tók áhöfn Sifjar svo myndir af öðru íslensku skipi á heimleið úr skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, Viðey RE-50.

Venju samkvæmt var líf og fjör á svonefndum 112-degi sem haldinn var 11. febrúar við tónlistarhúsið Hörpu. Þar kynntu allir helstu viðbragðsaðilar tól sín og tæki, þar á meðal Landhelgisgæslan. Sprengjueyðingarsveitin sýndi róbóta, köfunarbúnað og fleira áhugavert og mörg hundruð manns skoðuð varðskipið Þór. Hápunktur dagsins var tvímælalaust þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var hífður úr Reykjavíkurhöfn um borð í þyrluna TF-LIF.


Mars

Sprengjueyðingarsveit LHG hafði í ýmis horn að líta í byrjun mánaðarins. Liðsmenn hennar fóru þá meðal annars með þyrlunni TF-LIF í Svefneyjar á Breiðafirði til að eyða hættulegum sprengjubúnaði sem þar hafði fundist. Á meðan sprengjusérfræðingarnir voru í Svefneyjum nýtti áhöfnin á TF-LIF tækifærið og aðstoðaði bóndann í Skáleyjum, sem eru þar skammt frá, við að líta til með sauðfé sem þar er á veturna. Nokkrum dögum síðar kom sprengjusveitin einnig að því að hreinsa fjarskiptamöstur á Bláfelli á sunnanverðum Kjalvegi sem voru þakin þykkum ís. Sýnt var frá þessum verkefnum í hinum góðkunna sjónvarpsþætti Landanum.

Rannsóknarnökkvi sjósettur

Bandaríska Scripps-stofnunin og Landhelgisgæslan, Hafró og Háskóli Íslands gerðu sér samstarfssamning snemma á árinu. Liður í samstarfinu var sjósetning rannsóknanökkva (e. wave gliders) og öldurekdufla sem mæla ölduhæð, hafstrauma, loftþrýsting og hitastig á hafsvæðinu suðvestur af landinu. Sjómælingabáturinn Baldur var notaður til að sjósetja nökkvana í marsbyrjun en áhafnir varðskipa og loftfara LHG settu duflin í sjóinn með reglulegu millibili á árinu. Vonast er til að þessar rannsóknir nýtist með ýmsum hætti, meðal annars til að spá fyrir um loftslagsbreytingar og bæta öryggi sjófarenda.

Um miðjan mánuðinn hófst loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland á ný með komu flugsveitar ítalska hersins. 180 liðsmenn og sex Eurofighter Typhoon F-2000 tóku þátt í verkefninu. Starfsfólk LHG á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í samvinnu við Isavia önnuðust framkvæmdina af hálfu Íslands.

Í lok mars undirrituðu yfirmenn strandgæslustofnana átta norðurslóðaríkja tímamótayfirlýsingu um samvinnu á sviði leitar, björgunar, mengunarvarna og annars er varðar öryggi þeirra sem fara um norðurslóðir. Yfirlýsingin var samþykkt á fundi samtakanna Arctic Coast Guard Forum sem haldinn var í Boston en þar var jafnframt ákveðið að efna til stórar æfingar vegna stórslyss á hafinu á milli Íslands og Grænlands. Æfingin var svo haldin í september og er hægt að lesa nánar um hana hér að neðan.

Apríl

SeabedÍ apríl hafði Landhelgisgæslan afskipti af rannsóknarskipinu Seabed Constructor sem athafnaði sig á hafsvæði suður af landinu í óljósum tilgangi. Skipinu var stefnt til hafnar vegna gruns um að það stundaði ólöglegar rannsóknir. Síðar á árinu sóttu leigutakarnir um leyfi frá Umhverfisstofnun til verðmætabjörgunar úr flaki þýska skipsins Minden sem sökk á þessum slóðum í byrjun seinna stríðs.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar björguðu tveimur kajakræðurum úr sjónum við Þjórsárósa undir lok mánaðarins við erfiðar aðstæður. Annar mannanna var úrskurðaður látinn þegar komið var með hann til Reykjavíkur. Ljóst þótti að miklu máli hefði skipt að tvær þyrlur voru til taks því erfitt hefði verið takast á við þetta krefjandi verkefni með aðeins einni þyrlu.

Í upphafi mánaðarins stóðu Landhelgisgæslan, Samtök útgerða skemmtiferðaskipa á norðurslóðum (AECO) og leitar- og björgunarmiðstöðin í Norður-Noregi fyrir svokallaðri skrifborðsæfingu í Reykjavík. Umferð skemmtiferðaskipa á norðurslóðum hefur aukist verulega á undanförnum árum en miklar áskoranir fylgja leit og björgun á þessu hafsvæði. Æfingin þótti takast mjög vel.

Twin Otter-vélin sem notuð var til ísmælinganna.

Í apríl kom hingað til lands sérútbúin flugvél til að rannsaka hafísröndina á Grænlandssundi. Flugvélin var á vegum háskóla bandaríska sjóhersins en Hafliði Jónsson, prófessor við skólann, leiðir þetta áhugaverða verkefni. Landhelgisgæslan aðstoðaði við undirbúninginn og var flugvélin meðal annars gerð klár í flugskýli LHG á Keflavíkurflugvelli.

Páskaegg eru ómissandi liður páskahátíðarinnar. Þyrlan TF-GNA fór í gæsluflug í dymbilvikunni og kom þá við í ratsjárstöðinni á Bolafjalli með glaðning handa starfsmönnunum, ljúffeng súkkulaðiegg til að narta í.

Hrannar Sigurðsson spilmaður afhendir Gareth Randall, starfsmanni á Bolafjalli páskaeggin.

Maí

Annað loftrýmisgæsluverkefni Atlantshafsbandalagsins við Ísland á árinu var í höndum flugsveitar kanadíska flughersins. Sex Hornet CF-188 orrustuþotur voru notaðar til verkefnisins og komu hátt í tvö hundruð manns að því. Í tengslum við verkefnið æfði flugvél Landhelgisgæslunnar loftrýmisgæslu með kanadísku þotunum og voru einstakar myndir teknar af þessari æfingu í háloftunum. 

Kanadamennirnir tóku sér ýmislegt fyrir hendur á meðan dvölinni hér á landi stóð. Þeir léku íshokkí við íslenska íshokkílandsliðið sem lyktaði með sigri Íslands og yfirmaður sveitarinnar hljóp svo á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar til að safna fé fyrir Umhyggju, félags sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

Það var handagangur í öskjunni í maíbyrjun þegar strandveiðitímabilið hófst. Hundruð báta um allt land flykktust á miðin undir vökulum augum starfsmanna stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar. Raunar voru veðurskilyrði með þeim hætti einn sólríkan maídaginn að stjórnstöð LHG nam AIS-merki frá skipum í Norðursjó og við Noregsstrendur. Yfir eitt þúsund skip voru í kerfum stjórnstöðvar þegar mest lét. Auk stjórnstöðvar sinntu loftför og skip LHG eftirliti með strandveiðum allt tímabilið.

Eftirlit með úthafskarfaveiðum erlendra fiskiskipa rétt utan við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg er árviss viðburður. Varðskipið Þór var við eftirlit á svæðinu síðari hluta mánaðarins og fóru varðskipsmenn um borð í nokkur skip til að kanna hvort allt færi fram eftir settum reglum. Flugvélin TF-SIF fór í líka í eftirlitsferðir á Reykjaneshrygginn. Í einni ferðinni var öldureksdufli varpað úr flugvélinni en það er hluti af útbúnaði sem notaður er við hafrannsóknaverkefni við Ísland.

Mánudaginn 15. maí voru miklar annir hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. TF-LIF var kölluð út síðdegis eftir að neyðarkall barst frá báti sem var vélarvana nærri Straumnesi. Undir kvöld var svo óskað eftir þyrluaðstoð vegna bílslysa í Húnavatnssýslu og nærri Vík í Mýrdal. Þá var maður sem slasaðist við eggjatöku í bjargi á Langanesi fluttur á sjúkrahús með þyrlu.

Landhelgisgæslan var í mánuðinum sæmd umhverfisverðlaunum Faxaflóahafna, Fjörusteininum svonefnda. meðal annars fyrir snyrtilega aðkomu í kringum starfsemina í Reykjavíkurhöfn og notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Í lok mánaðarins tók svo áhöfn varðskipsins Þórs þátt í sérstaklega skemmtilegu verkefni í friðlandinu á Hornströndum um helgina. Vaskur hópur sjálfboðaliða hreinsaði rusl í Aðalvík og var varðskipið notað til að ferja fólk á svæðið og flytja ruslið úr friðlandinu. Óhætt er að segja að mannskapurinn hafi tekið hressilega til hendinni. Þegar yfir lauk höfðu þrjátíu saltpokar og kör verið fyllt af alls kyns rusli. 

Þetta er fjórða sumarið í röð sem efnt er til slíkrar sorphreinsunar á Hornströndum. Landhelgisgæslan er afar stolt að fá að vera með og leggja þannig sitt af mörkum við að halda ströndum landsins hreinum. 

 Júní

Atlantshafsbandalagið stóð fyrir kafbátaeftirlitsæfingunni Dynamic Mongoose suður af Íslandi í júní. Níu ríki auk Íslands tóku þátt í æfingunni og lögðu þau til fimm kafbáta, níu freigátur og eitt rannsóknarskip, auk 6-8 kafbátaleitarflugvéla og þyrla. Aðkoma Landhelgisgæslunnar fólst meðal annars í þátttöku stjórnstöðvar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli auk þess sem varðskipið Týr, flugvél gæslunnar og þyrlur taka þátt í þeim hluta æfingarinnar sem tengist hefðbundnum verkefnum stofnunarinnar. Áður en æfingin hófst var efnt til minningarathafnar í tilefni af því að 75 ár voru liðin frá því að skipalest bandamanna í síðari heimsstyrjöldinni. PQ17, sigldi til Kólaskaga í Rússlandi. Varðskipið Týr fór í broddi fylkingar þegar herskip og kafbátur sigldu inn Hvalfjörð í tengslum við þessa athöfn. 


Í júníbyrjun tóku flugvél og þyrla Landhelgisgæslunnar tóku þátt í björgunaræfingunni Skýjum ofar ásamt fallhlífastökkvurum úr Flugbjörgunarsveitinni og fleiri björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Æfingin fór fram á Öræfajökli og var líkt eftir útkalli þar sem bjarga þurfti fólki úr snjóflóði á þessum hæsta jökli landsins. 

Í lok mánaðarins ráku svo margir vegfarendur í miðborg Reykjavíkur upp stór augu þegar svartklæddir menn sigu úr þyrlu niður á þilfar farþegaskips í höfninni. Þarna var sem betur fer engin hætta á ferð heldur reglubundin æfing sem sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar efndi til með áhöfn norska farþegaskipsins Fram.

Að venju tók svo starfsfólk Landhelgisgæslunnar ríkan þátt í hátíðarhöldum vegna sjómannadagsins sem fóru víðast hvar fram í blíðskaparveðri. Fulltrúar stofnunarinnar tóku við rausnarlegri gjöf á sjómannadagssamkomu í Hafnarfirði. Skipverji af Barðanum og Kiwanisklúbburinn Eldborg, auk þeirra sem styrkt hafa þyrlukaupasjóð LHG, gáfu þá hjartahnoðtæki í þyrlurnar. Þetta var ekki eina tækið sem Gæslan fékk að gjöf á árinu því í haust fékk hún þrjá barkakýlisspegla með myndavél til að hafa um borð í þyrlunum.  

Júlí

Mikill viðbúnaður var settur í gang þegar neyðarboð bárust frá bandarískri skútu djúpt suðvestur af landinu morgunn einn í júlí. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar setti leitaraðgerðir í gang og nokkrum klukkutímum síðar fann svo flugvél Isavia skútuna eftir að hafa miðað út sendinn. Allir um borð voru heilir á húfi en kaldir og hraktir. Voru skipbrotsmennirnir teknir upp í rannsóknarskipið Árna Friðriksson sem hafði siglt á vettvang. Í október veitti bandaríska strandgæslan áhöfn Árna Friðrikssonar, flugmönnum Isavia-vélarinnar og stjórnanda og varðstjórum í stjórnstöð LHG sérstaka viðurkenningu fyrir þátt sinn í leit og björgun skútunnar. Viðurkenningin var afhent við athöfn um borð í varðskipinu Þór.

Venju samkvæmt var mikið um útköll hjá flugdeild í júlí. Þyrlan var til dæmis kölluð út um miðjan mánuðinn til að aðstoða franskan skátahóp sem komist hafði í sjálfheldu á sandeyri í miðri Skaftá. 

Þá tóku tvær af þyrlum Landhelgisgæslunnar þátt í umfangsmikilli leit sem gerð var af manni sem féll í Gullfoss. Tæpum mánuði eftir að maðurinn fór í fossinn fundu áhöfn þyrlu LHG og björgunarsveitarmenn lík hans neðar í Hvítá.

Flugvélin TF-SIF hélt aftur til Miðjarðarhafsins í júlí til að sinna landamæraeftirliti fyrir Frontex. Í fyrstu eftirlitsferðinni kom áhöfnin auga á seglskútu sem vakti grunsemdir. Um borð var fimmtíu manna hópur af flótta- og farandfólki sem komið var í öruggt skjól. Sif kom aftur til landsins í ágústlok en var svo aftur í Frontex-verkefnum í nóvember og desember. Rétt eins og um sumarið dró til tíðinda í fyrstu eftirlitsferðinni í nóvember þegar áhöfnin sá grunsamlegan hraðbát á siglingu nærri gríska meginlandinu. Þar voru á ferð smyglarar með 1,6 tonn af kannabisefnum. Gríska strandgæslan handsamaði smyglarana.

Í júlí var svo efnt til óvenjulegrar björgunaræfingar á Faxaflóa. Þar voru á ferðinni þyrlusveit LHG og áhöfn þýska kafbátsins U-32. Kafbáturinn var hér við land í tengslum við kafbátaeftirlitsæfingu Atlantshafsbandalagsins sem haldin var í sumar við Ísland.  

Ágúst

Í sumar hófst SUSTAIN-borverkefnið í Surtsey, stærsta rannsóknarverkefni sem fram hefur farið í eynni. Borvinnan og rannsóknir stóðu svo yfir fram á haustið. Varðskipið Þór og þyrla Landhelgisgæslunnar voru notuð til að flytja útbúnað og vistir í eyna og nokkrum vikum síðar var svo varningurinn fluttur aftur í land. Sökum þess hve lending báta er erfið í Surtsey var þyrlan notuð til að færa farminn á milli varðskips og eyjar. Þegar yfir lauk höfðu um sjötíu hlöss verið flutt yfir. Verkið var afar vandasamt og krafðist mikillar nákvæmni og varúðar enda er Surtsey friðlýst og á heimsminjaskrá UNESCO.

Í ágústlok hófst loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins á ný með komu flugsveitar bandaríska flughersins. Um 200 liðsmenn tóku þátt í verkefninu og komu sex F-15C orrustuþotur ásamt eldsneytisbirgðavélum með sveitinni. Á meðan verkefninu stóð bauð sendiráð Bandaríkjanna, í samstarfi við flugsveitina, Barnaspítala Hringsins og Landhelgisgæslunnar langveikum börnum í heimsókn á öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli. Börnin fengu að eyða deginum með bandarísku flugsveitinni og vera „flugmaður í einn dag“.

Varðskipið Týr var eins og nýtt eftir að hafa fengið hressilega yfirhalningu í slippnum á Akureyri síðsumars. Skipsbotninn var málaður með sérstakri silíkonmálningu sem er mun umhverfisvænni en aðrar tegundir botnmálningar. Með endurbótunum verður skipið sparneytnara og mengar minna. 

September

Arctic Guardian, fyrsta sameiginlega leitar- og björgunaræfing samtaka strandgæslustofnana norðurslóðaríkja (e. Arctic Coast Guard Forum), var haldin við septemberbyrjun. Markmið æfingarinnar var að þróa fjölþjóðlega samvinnu á þessu sviði og gera hana nánari en jafnframt sýna fram á getu aðildarríkjanna til að ráðast í sameiginlegar leitar- og björgunaraðgerðir á norðurslóðum. Líkt var eftir að farþegaskip á norðurslóðum lenti í sjávarháska. Fimm strandgæsluskip, þyrlur og flugvélar tóku þátt í æfingunni og var aðgerðum stýrt úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Þessi tímamótaæfing þótti heppnast afar vel og stefnir ACGF að því að halda fleiri slíkar æfingar í framtíðinni.

Tvær af þyrlum Landhelgisgæslunnar aðstoðuðu lögreglu, aðra viðbragðsaðila og íbúa suðaustanlands í september þar sem mikil úrkoma og vatnavextir setti samfélagið úr skorðum. Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið mörg og margvísleg. Þyrlurnar voru notaðar til að kanna ástand brúa og þjóðvega, sýna forsætisráðherra og föruneyti hans ástandið á flóðasvæðinu, flytja starfsfólk heilbrigðisstofnana á milli staða, koma lyfjum og vistum á bæi sem voru innlyksa og skutla skólabörnum heim. Þá var fjöldi fólks fluttur yfir Steinavötn en brúin yfir ána stórskemmdist í flóðunum. 

Sjómælingabáturinn Baldur var við mælingar í Breiðafirði stærstan hluta sumars vegna fyrirhugaðrar útgáfu nýrra sjókorta af Breiðafirði. Í september var greint frá því að áhöfn Baldurs hafi með fjölgeislamælingum staðsett skipsflak á svæði sunnan Brjánslækjar. Allt bendir til að flakið sé af norska flutningaskipinu Nordpolen sem sökk á þessum slóðum árið 1926. Málið vakti talsverða athygli.

Síðla septembermánaðar var sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar kölluð út þegar Ljósafell SU-70 fékk tundurdufl í trollið austur af landinu. Veruleg hætta var á ferðum því duflið var komið upp á dekk. Sprengjusérfræðingar sáu um að sökkva duflinu á tíu metra dýpi í Fáskrúðsfirði og köfuðu svo niður að því til að festa á það sprengjuhleðslu svo að mætti eyða því. Vel gekk að eyða duflinu en ljóst var af sprengingunni að það var með fullri virkni.

Október

Northern Challenge, árleg æfing sprengjusérfræðinga víðs vegar að úr heiminum, var haldin í október. Þetta var í sextánda sinn sem æfingin fór fram hérlendis. 33 lið frá 15 ríkjum tóku þátt í henni og var heildarfjöldi þátttakenda um 300, fleiri en nokkru sinni fyrr. Æfingin var haldin á starfssvæði Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, gamla varnarliðsvæðinu og hafnarsvæðum í nágrenninu. Æfingin, sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, er í umsjón séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðs LHG en Atlantshafsbandalagið styrkir verkefnið.

Varðskipið Þór hafði í lok mánaðarins afskipti af farþegabáti á sundunum á Kollafirði. Haffærisskírteini bátsins var útrunnið, AIS-búnaður óvirkur, lögskráningu áhafnar ábótavant og um borð voru næstum því fjórfalt fleiri farþegar en áður útgefið farþegaleyfi heimilaði. Þá hafði báturinn ekki tilkynnt sig úr höfn. Málið vakti athygli og var litið alvarlegum augum enda hefði alvarlegt ástand skapast ef báturinn hefði lent í hafsnauð.

Á hverju ári heimsækja mörg hundruð manns starfstöðvar Landhelgisgæslunnar og kynna sér verkefnin. Starfsfólk LHG sinnir líka kynningum af ýmsu tagi úti í samfélaginu. Þannig voru fulltrúar Gæslunnar á meðal þeirra sem kynntu grunnskólanemendum á Suðurnesjum og öðrum áhugasömum starfsemi sína á sérstakri starfsgreinakynningu sem Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum efndi til í október. Í hópnum voru til dæmis bókari, flugvirki, tæknimaður, stýrimaður og sjókortagerðarmaður og lögðu margir leið sína að kynningarbásnum okkar til að forvitnast um hvernig það er að vinna fyrir Landhelgisgæsluna eða bara þiggja súkkulaðimola. 

Nóvember

Sigketill

Í nóvember var útlit fyrir að nokkrar af stærstu eldstöðvum Íslands væru að rumska af svefni sínum og munaði ekki síst þar um Öræfajökul sem síðast gaus fyrir tæpum þrjú hundruð árum. Vísindamenn og almannavarnir fylgdust grannt með framvindunni og flaug þyrla Landhelgisgæslunnar með þá yfir Bárðarbungu, Öræfajökul og fleiri eldstöðvar til að kanna þar aðstæður. Óvissustig er enn í gildi vegna jökulsins og ekki hægt að útiloka að hann láti á sér kræla á nýju ári.

Rjúpnaveiðifólk hélt til fjalla í október og nóvember til að ná sér í jólamatinn. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar aðstoðaði lögreglu við eftirlit með rjúpnaveiðum. Í einni ferðinni voru afskipti höfð af veiðimönnum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum en þar eru allar skotveiðar bannaðar. Annars viðraði víðast vel til veiða eins og myndir sem áhöfn þyrlunnar tók bera með sér.

Áhöfnin á TF-GNA tók þátt í skemmtilegu verkefni með tónlistarmanninum Ásgeiri Trausta, RÚV og verkfræðistofunni Verkís í nóvember. Hylki með hljómplötu var varpað í hafið til þess að vekja athygli á mengun sjávar. Fyrr á þessu ári varði Ásgeir Trausti heilum sólarhring í hljóðveri þar sem hann tók upp tónlist án afláts og setti jafnóðum á vínylplötur. Hann ákvað að nota nokkrar plötur í fjársjóðsleit og gefa aðdáendum færi á að eignast þær. Þegar þessar línur eru ritaðar velkist skeytið um í hafinu suðaustur af landinu.

Desember

Um miðjan þennan mánuð efndi danski sjóherinn efndi til sérstakrar athafnar um borð í eftirlitsskipinu Hvidbjørnen í Reykjavíkurhöfn þegar fyrsta Seahawk-þyrlan var formlega tekin í notkun á eftirlitsskipum hersins. Endurnýjun danska þyrluflotans hefur mikið að segja fyrir öryggi íslenskra sjófarenda. Nýju þyrlurnar eru mun öflugri en gömlu Lynx-þyrlurnar og eiga eftir að nýtast vel við leit og björgun á Norður-Atlatnshafi. Þá þýða breytingar sem gerðar voru á dönsku skipunum að Super Puma þyrlur Landhelgisgæslunnar geta nú lent á þilfari þeirra. TF-LIF æfði einmitt lendingar á Hvidbjørnen í desember.  

Undir lok ársins var svo eitt viðamesta útkall ársins þegar alvarlegt rútuslys varð nærri Kirkjubæjarklaustri. Allar þrjár þyrlur Landhelgisgæslunnar voru notaðar við að flytja slasaða af vettvangi. Þá var flugvélin TF-SIF líka kölluð út en auk áhafnar voru félagar í Flugbjörgunarsveitinni til taks. Til stóð að búnaði yrði varpað úr vélinni og björgunarsveitarmenn stykkju frá borði í fallhlífum ef með þyrfti. Ekki kom til þess því beiðni um aðstoð flugvélarinnar var afturkölluð. Fá, ef nokkur, dæmi eru um að öll loftför Landhelgisgæslunnar séu kölluð út vegna sama málsins. 

Thyrlur-Klaustur