Samstarf á sviði leitar og björgunar á norðurslóðum

Landhelgisgæslan á gott samstarf við nágrannaríki Íslands á sviði öryggis-, löggæslu- og eftirlitsmála en líka í leitar- og björgunarmálum.

Á sviði leitar og björgunar er Landhelgisgæslan í daglegu samstarfi við Dani, Norðmenn, Breta, Færeyinga og Kanadamenn en þessar þjóðir eru ábyrgar fyrir leit og björgun á svæðum er liggja að ábyrgðarsvæði Íslands. Unnið er eftir skilgreindum verkferlum við Dani varðandi eftirlit, leit, björgun, æfingar og samvinnu (SOP COOP SAGA) og í farvatninu er samkomulag við Bandaríkjamenn um slíkt samstarf.

Þá tekur Landhelgisgæslan þátt í samstarfi strandgæslna á Norðurlöndum og við Norður-Atlantshaf (NACGF). Að auki hefur Landhelgisgæslan átt gott samstarf við Norðmenn og Svía vegna kaupa á skipi og flugvél og undirbúnings á þyrlukaupum. Samstarf þjóða á Norður-Atlantshafi á sviði gagnkvæmra upplýsingaskipta, aðgerða og þjálfunar er mikilvægt og nauðsynlegt að Landhelgisgæslan sé virkur þátttakandi í slíku samstarfi.

ARCTIC COAST GUARD FORUM

Landhelgisgæslan tekur þátt í samstarfsvettvangi strandgæslan norðurslóðarríkjanna (Arctic Coast Guard Forum – ACGF). ACGF leggur áherslu á samstarf allra norðurskautsríkjanna á sviði leitar og björgun en auk þess er samstarf á sviði mengunarvarnar og á sviði öryggismála. Haustið 2017 var haldin umfangsmikil leitar og björgunaræfing á vegum ACGF á Íslandi sem nefndist Arctic Guardian. Um var að ræða fyrstu leitar- og björgunaræfinguna sem öll norðurskautsríkin taka þátt í. Formennska í ACGF fylgir formennsku ríkja í Norðurskautsráðinu (Arctic Council) og Ísland tók við formennskunni í apríl 2019 og var í formennsku til ársins 2021. 

Img_1334_1569241891486Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, tekur við formennskunni fyrir hönd Landhelgisgæslunnar í Turku í Finnlandi.

Heimasíða ACGF