Erlend verkefni
Landhelgisgæslan hefur sinnt verkefnum af ýmsu tagi út um allan heim
Landhelgisgæslan tekur þátt í fjölmörgum verkefnum erlendis á sviði öryggisgæslu, landamæragæslu, leit og björgun og öðrum sviðum tengt starfseminni. Má þar nefna æfingar á sviði leitar og björgunar í samstarfi við strandgæslur nágrannaríkja Íslands, norðurslóðarsamstarf og verkefni á vegum NATO.
Frá árinu 2010 hefur Landhelgisgæslan tekið þátt í landamæraeftirlit á vegum Evrópsku landamæra og strandgæslustofnunarinnar, Frontex. Um er að ræða framlag Íslands í sameiginlegt landamæraeftirlit á syðri landamærum Schengen-svæðisins en öllum Schengen-ríkjum ber skylda til að aðstoða hvert annað á álagssvæðum.
Frá 2010-2015 var Landhelgisgæslan með varðskip og flugvél í þessum verkefnum en frá 2016 hefur eftirlits og björgunarflugvélin TF-SIF flugvélin sinnt þessum verkefnum í 2-4 mánuði á ári. Verkefnið felst í vöktun ytri landamæra Schengen í lögsögum Spánar, Ítalíu og Grikklands við norður Afríku. Um er að ræða almenna löggæslu með áherslu á björgun flóttafólks.