Sjávarföll

Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar (áður Sjómælingar Íslands) hefur gefið út sjávarfallatöflur frá árinu 1954. Í þeim er reiknaður tími og hæð flóðs og fjöru í Reykjavík, á Ísafirði, Siglufirði, Djúpavogi og Þorlákshöfn ásamt upplýsingum um tíma- og hæðarmun sjávarfalla í mörgum öðrum höfnum í landinu. 

Sjávarfallatöflur 2024 - leiðrétting bls. 19

Einnig er gefið út Sjávarfallaalmanak. Þessar útgáfur er hægt að nálgast hjá:

Sölustaðir

Hafnarfjörður

Viking björgunarbúnaður
Íshellu 7, 220 Hafnarfjörður
Sími: 544-2270
Netfang: sjokort@viking-life.com

Akureyri

Gúmmíbátaþjónusta Norðurlands,
Draupnisgötu 3, 603 Akureyri.
Sími:  462-6040
Fax: 461 1790
Netfang: gummib@gummib.is

Um sjávarföll og útreikninga þeirra

Töflur yfir sjávarföll í Reykjavík og flóðbið annarra staða við Ísland gáfu Sjómælingar Íslands fyrst út árið 1954. Útreikningur taflnanna byggðist á athugun, sem gerð var af starfsmönnum Sjómælinganna á sjávarföllum í Reykjavíkurhöfn allt árið 1951.

Áður höfðu birst í almanaki Þjóðvinafélagsins og í Sjómannaalmanakinu töflur yfir sjávarföll sem byggðust á athugunum er náðu yfir skemmra tímabil og gátu því ekki orðið eins nákvæmar.

Fylgst hefur verið með sjávarföllum í Reykjavík nær óslitið síðan 1951 og grundvallast útreikningur töflunnar fyrir Reykjavík nú á greiningu sjávarfallanna (harmoniska) stuðla og meðalhæð sjávar allt tímabilið 1956 til 1989.

Meðalsjávarhæð þess tímabils reyndist vera 2,182 m fyrir ofan 0 Sjómælinganna sem er 12,54 m undir koparplötu á norðvesturhlið hússins nr. 7 við Ægisgötu. Bent skal á að hæð áður nefndrar koparplötu er 10,718 m í hæðarkerfi Reykjavíkurborgar. Því er 0 þess hæðarkerfis 1,82 m ofan við 0 Sjómælinga Íslands.

Aðrar niðurstöður úr útreikningi sjávarfalla í Reykjavík eru þessar

Meðalstórstraumsflóð 4,0 m
Meðalsmástraumsflóð 3,0 m
Meðalsjávarhæð 2,18 m
Meðalsmástraumsfjara 1,3 m
Meðalstórstraumsfjara 0,2 m

  1. Hæð meðalstórstraumsflóðs (fjöru) er meðaltal tveggja samliggjandi flóða (fjara) þegar fallhæðin (munur flóðs og fjöru) er mest (h.u.b. hálfs-mánaðarlega) í heilt ár, þegar meðalhámark tungls í stjörnubreidd er 23½°.
  2. Hæð meðalsmástraumsflóðs (fjöru) er meðaltal tveggja samliggjandi flóða (fjara) þegar fallhæðin er minnst við sömu skilyrði og í lið a.
  3. Meðalsjávarfallahæð er meðaltal flóðs og fjöru, stórstreymis og smástreymis.
  4. 4,62 m og - 0,44 m eru hæsta flóð og lægsta fjara sem reiknuð verða út miðað við venjuleg veðurskilyrði. Því marki verður ekki náð á hverju ári, en mesta fjara getur orðið lægri og mesta flóð enn hærra vegna afbrigðilegs veðurs.

Breytingar á veðri valda tilsvarandi mismun á útreiknuðum og raunverulegum sjávarföllum því að töflur yfir sjávarföll eru reiknaðar út miðað við meðalloftþyngd. Falli loftvog um 10 millibör má búast við hækkun sjávaryfirborðs um 0,1 m og öfugt. Blási af hafi og sé loftvog lág, mun sjávarhæðin vera meiri en taflan sýnir, og á hinn bóginn minni með frálandsvindi og hárri loftvog.

Auk töflunnar fyrir Reykjavík eru töflur fyrir Ísafjörð, Siglufjörð og Djúpavog. Athuganir voru gerðar á árunum 1972-1973 fyrir Ísafjörð, 1976 fyrir Siglufjörð og 1977-1980 fyrir Djúpavog.

Sjavarhaedir

Á eftirtöldum höfnum er hægt að nálgast stöðu sjávarfalla, sýnd eru 10 mín. gildi:

ReykjavíkGrindavíkHúsavíkHvanney, Sandgerði, SkagaströndVestmannaeyjarÞorlákshöfn

Nánari upplýsingar um veður-, ölduspár er hægt að fá á vef Vegagerðarinnar og sjóveðurspá á vef Veðurstofu Íslands.