Löggæsla og eftirlit á hafi

Varðskip LHG gegna mikilvægu hlutverki við löggæslu og eftirlit

Eftirlit með farartækjum á sjó, fiskveiðum, mengun og ýmsu fleira er á meðal þess sem fellur undir löggæslu- og eftirlitshlutverk Landhelgisgæslunnar á hafi. Skipverjar á varðskipum fara einnig reglulega um borð í skip og mæla stærð fisks. 

  • 117396760_383252905972351_3148151418477050710_n

 

Almenn löggæsla á hafinu felst fyrst og fremst í því að hafa eftirlit með farartækjum á sjó. Það er annað hvort gert með varðskipum eða loftförum og leiðir það af sjálfu sér að fyrst og fremst er verið að fylgjast með því hvort skipin eru haffær og hvort þau hafa nauðsynlegan öryggisbúnað, hvort stjórnendur þeirra hafa tilskilin réttindi, hvort brotið er gegn lögum um fiskveiðar, fiskveiðistjórnun og nytjastofna sjávar. Einnig er verið að fylgjast með mengun, farartálmum á sjó sem valdið geta sjófarendum tjóni og hvort vitar og önnur siglingamerki eru í lagi. Við þetta bætist ýmislegt annað t.d. eftirlit samkvæmt tollalögum og lögum um siglingavernd, þ.m.t. hvort farartæki á sjó eru notuð í ólögmætum tilgangi.

Samkvæmt lögum um fiskveiðilandhelgi Íslands er Landhelgisgæslunni fengið mikilsvert hlutverk við eftirlit með fiskveiðum. Er þetta verkefni sameiginlega á könnu Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslunnar. Segir þar meðal annars að verði starfsmenn Landhelgisgæslunnar varir við að stundaðar séu skaðlegar veiðar, skuli þeir tilkynna það til Hafrannsóknastofnunar eða þeirra aðila sem stofnunin tilnefnir í því skyni.

Eftirlit varðskipsmanna felst í því að mæla stærð fisks um borð í bátum og skipum og reynist meðaltal fisks vera undir leyfilegum viðmiðunarmörkum gerir skipherra vakthafandi fiskifræðingi hjá Hafrannsóknastofnun viðvart og gerir tillögu um lokun svæðis. Áður en skipherra gerir slíka tillögu á hann að ráðfæra sig við skipstjóra sem eru að veiðum á svæðinu. Í framhaldi af því taka sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar ákvörðun um skyndilokun hafsvæðisins. 

Eftirlit Landhelgisgæslunnar á hafi úti felst í því að áhafnir varðskipa framkvæma svokallaðar skyndiskoðanir. Við skyndiskoðun eru skipsskjöl, búnaður, lögskráning, atvinnuréttindi yfirmanna, veiðarfæri og afli skoðaður. Við skoðun notar handhafi löggæsluvalds staðlað form til að merkja við þá þætti sem kannaðir eru og skrá niður ef eitthvað er athugavert og ólöglegt. Að lokinni skoðun er skipstjóra gefinn kostur á að skrá athugasemdir og hann undirritar einnig skýrsluna. Hafi fiskveiðibrot verið framið, er skipinu vísað til hafnar þar sem lögreglan rannsakar málið til hlítar. Landhelgisgæslan sendir lögreglustjóra kæru og hann tekur síðan ákvörðun um hvort ákært er í málinu. Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands fara með lögregluvald þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu samkvæmt lögum þessum í efnahagslögsögu Íslands. Áhöfnum farartækja á sjó eða hafstöðva er skylt að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands. 

117394103_309358276954081_6322688546975138226_n

Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, sem hafa lögregluvald og starfa við löggæslu, þ.m.t. siglingavernd og sprengjueyðingu, hafa heimild til að beita skotvopnum við störf sín samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að fara um borð í farartæki á sjó eða hafstöð til rannsóknar ef grunur leikur á um lögbrot og til að sinna lögbundnu eftirliti. Þeim er heimilt að vísa farartækjum til hafnar ef nauðsynlegt er til að ljúka rannsókn máls eða til að binda enda á brotastarfsemi. Þeim er jafnframt heimilt að yfirtaka stjórn skips. 

Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að banna stjórnanda farartækis að halda til hafnar ef grunur leikur á um brot gegn lögum um siglingavernd og framkvæma öryggisleit í vistarverum og á farþegum skips.