LHG á starfsgreinakynningu á Suðurnesjum

Fulltrúar Gæslunnar kynntu ungmennum á Suðurnesjum starfsemina

Landhelgisgæslan tók í vikunni þátt í afar skemmtilegum viðburði á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þarna var um að ræða starfsgreinakynningu fyrir nemendur í 8. og 10. bekk á Suðurnesjum auk hópa frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Samvinnu, Fjölsmiðjunni og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Kynningin er hluti af sóknaráætlun Suðurnesja. Um sex hundruð manns sóttu viðburðinn. 

Starfsfólk úr flestum deildum Landhelgisgæslunnar sá um að kynna starfsemina fyrir unga fólkinu, meðal annars úr starfsstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Í hópnum voru til dæmis bókari, flugvirki, tæknimaður, stýrimaður og sjókortagerðarmaður og lögðu margir leið sína að kynningarbásnum okkar til að forvitnast um hvernig það er að vinna fyrir Landhelgisgæsluna eða bara þiggja súkkulaðimola. 


Fulltrúum LHG á starfsgreinakynningunni bar saman um að viðburðurinn hefði bæði verið ánægjulegur og vel heppnaður. Við vonum að unga fólkið sem sótti hann sé sama sinnis, ef til vill voru í hópi þess einhverjir af tilvonandi samstarfsfélögum okkar í framtíðinni.