Rússneskar herflugvélar á íslenska loftrýmiseftirlitssvæðinu

Tvær orrustuþotur flugu til móts við vélarnar

  • Loftrymisgaesla_1551878624263

28.3.2019 Kl: 13:06

Seint í gærkvöld komu inni í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins hér við land tvær óþekktar flugvélar sem hvorki höfðu tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru með ratsjársvara í gangi. Í samræmi við vinnureglur Atlantshafsbandalagsins flugu tvær orrustuþotur ítalska flughersins, sem eru hér á landi við loftrýmisgæslu, til móts við vélarnar til að auðkenna þær.

Þarna reyndust á ferðinni tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 (Bear F). Flugvélarnar voru innan loftrýmiseftirlitssvæðis Atlantshafsbandalagsins en utan íslenskrar lofthelgi. Rússneskar herflugvélar flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæðið fyrr í þessum mánuði og fóru þá einnig ítalskar herþotur til móts við þær.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland stendur nú yfir en flugsveit ítalska flughersins kom nýverið hingað til lands. Verkefnið heyrir undir svæðisstjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) en Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hérlendis, í samvinnu við Isavia. Ítalska flugsveitin er með fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.