TF-GRO sótti bráðveikan skipverja

Áhöfnin á TF-GRO sótti skipverja á línuskipi sem veiktist út af Langanesi.

  • IMG_1092


5.9.2019 Kl: 20:55

Um hádegisbil í dag barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beiðni um aðstoð vegna bráðveiks skipverja á línuskipi sem statt var um 15 sjómílur út af Langanesi. TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út sem og liðsmenn björgunarsveitarinnar Vopna á Vopnafirði sem héldu til móts við skipið á björgunarskipinu Sveinbirni Sveinssyni. 

Sjúkraflugvél Mýflugs var sömuleiðis kölluð út og beðin um að halda á Þórshöfn. 

Klukkan 14:47 var þyrla Landhelgisgæslunnar komin að skipinu. Sigmaður og læknir fóru um borð og í kjölfarið var sjúklinginn hífður upp í þyrluna af stefni skipsins. Þegar hífingum var lokið var rakleiðis haldið á Þórshöfn þar sem sjúkraflugvél Mýflugs beið og flutti sjúklinginn til Reykjavíkur. 

Á heimleiðinni óskaði lögreglan á Suðurlandi eftir aðstoð áhafnar þyrlunnar vegna göngumanns sem hafði örmagnast í grennd við Morinsheiði. Þegar TF-GRO var skammt frá göngumanninum var útkallið afturkallað þar sem björgunarsveitarmenn voru komnir að manninum og fylgdu honum niður í Bása. Þyrlan lenti aftur í Reykjavík klukkan 18:10.

IMG_1281TF-GRO á Reykjavíkurflugvelli.