Fréttayfirlit: september 2003

Sjómælingar hafa gengið vel í ár

Mánudagur 29. september 2003.   Sjómælingabáturinn Baldur er gerður út frá vorbyrjun á hverju ári og er reynt að mæla eins mikið og kostur er fram á haust, á meðan veður leyfir.  Nýlega lauk mælingatímabili ársins hjá sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar. Sjómælingabáturinn Baldur var við mælingar á Austfjörðum og á hafinu þar austur af vegna endurgerðar korts númer 73 sem nær yfir stærstan hluta Austfjarða.    Á tímabilinu var bátnum einnig siglt norður á Skjálfanda vegna aðstoðar við botnlagskönnunarverkefnis á vegum Raunvísindadeildar Háskólans.   Við það tækifæri dvöldu nokkrir  heimsþekktir vísindamenn á þessu sviði um borð í Baldri á meðan á mælingunum stóð.  Allt hjálpaðist að, gott veður, góður tækjabúnaður og reyndir mælingamenn.  Verkefnið gekk því vonum framar og lauk innan þeirra tímamarka sem áætluð höfðu verið.   Er Baldri var aftur siglt til Austfjarða var komið við í nokkrum höfnum á Norð-Austurlandi til að mæla aðsiglingarsvæði þeirra og innsiglingarennur.  Þá kom að góðum notum fjölgeislamælir sem Landhelgisgæslan hefur afnot af vegna samnings við Hafrannsóknastofnun bandaríska sjóhersins.   Áhöfn Baldurs hélt áfram að mæla syðst á Austfjarðasvæðinu frá miðjum ágúst og fram í miðjan september.  Þá var Baldri siglt til Reykjavíkur, fjölgeislamælirinn ásamt tilheyrandi búnaði tekinn úr honum og gengið frá bátnum fyrir veturinn.   Þar næst var mælingabúnaður settur um borð í varðskipið Ægi vegna fyrirhugaðra mælinga á ytri svæðunum í korti 73 en þar hentar stærra skip betur til mælinga vegna sjólags og strauma.  Verkefnið á Ægi gekk vel og voru 1500 sjómílur, alls um 1350 ferkílómetra stórt svæði, mælt samkvæmt stöðlum Alþjóða Sjómælingastofnunarinnar á 10 dögum.   Sjómælingatímabilið í ár gekk í heildina vel þótt þoka og súld hrelldi Austfirðinga stóran hluta saumarsins.  Það kom ekki að sök við mælingar því að logn og stillur voru tíðar í austfjarðaþokunni.  Þegar veður og sjólag leyfði ekki mælingar utan fjarða var tíminn nýttur til mælinga innan fjarða.  Það kom því varla fyrir að hætta þyrfti mælingum af þeim sökum.   Starfsmenn sjómælingadeildar sjá fram á annasaman vetur við úrvinnslu þeirra gagna sem safnað var yfir sumarmánuðina.  Um er að ræða 6500 sjómílur af dýptarmæligögnum sem þarf að flokka eftir dýpi og yfirfara og leiðrétta með tilliti til truflana, sjávarfalla og hljóðhraða.  Að því loknu eru gögnin afhent starfsmönnum kortadeildar sem setja þau eftir kúnstarinnar reglum inn í sjókort.   Þar sem mælingar gengu svo vel fyrir austan eru allar líkur á að því takmarki verði náð að ljúka mælingum vegna endurnýjunar og nútímavæðingar korts 73 fyrir haustið 2004.  Vænta má nýrrar útgáfu af því korti árið 2005 eins og áætlað var en um það leyti má búast við að stór og djúprist skip verði algeng á þessum slóðum vegna fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði.   Dagmar Sigurðardóttir                 Ásgrímur Ásgrímsson upplýsingafulltrúi                        deildarstjóri sjómælingadeildar     Mynd: Sjómælingasvið LHG/ Hafsteinn forstjóri ásamt Brjáni matsveini/bátsmanni  og Benedikt vélstjóra þegar Hafsteinn kom í heimsókn um borð í Baldur í sumar á meðan á vísindaverkefninu á Skjálfanda stóð.     Mynd: Sjómælingasvið LHG/ Baldur við mælingar fyrir austan land.     Mynd: Sjómælingasvið LHG/ Varðskipið Ægir við mælingar austur af landinu.       Mynd: Sjómælingasvið LHG/ Þrívíddarmynd af mælingasvæði varðskipsins Ægis.  Greinilega má sjá hluta Norðfjarðardjúps og Seyðisfjarðardjúps (bláu svæðin) þar sem horft er eftir svæðinu úr austri til vesturs.    

Þyrla send til leitar vegna mannlauss báts á Helluvatni

Sunnudagur 28. september Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 20:22 í kvöld eftir að lögregla tilkynnti að mannlaus bátur hefði sést á reki á Helluvatni við Rauðhóla.  Sjónarvottur hafði haft samband við lögregluna og taldi sig hafa séð 3 menn í bátnum fyrr um daginn.  TF-LÍF fór í loftið kl. 20:43 og sveimaði yfir svæðinu í u.þ.b. klukkustund en ekkert fannst.  Björgunarsveitir og kafarar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins leituðu einnig en án árangurs.  Talið er líklegt að báturinn hafi verið illa festur og rekið út á vatnið. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Skip staðið að meintum ólöglegum veiðum á Kötlugrunni

Laugardagur 20. september 2003. Varðskip stóð skip að meintum ólöglegum línuveiðum á Kötlugrunni í gær en þar eru veiðar bannaðar skv. reglugerð nr. 230/2003 um bann við línuveiðum á Kötlugrunni.  Skipstjórinn fékk fyrirmæli um að sigla til hafnar í Vestmannaeyjum þar sem lögregla tók á móti honum og færði til yfirheyrslu.  Verði skipstjórinn fundinn sekur um meint fiskveiðibrot er lágmarksrefsing skv. lögum 600 þúsund krónur auk þess að heimilt er að gera afla og veiðarfæri upptæk.   Skipið var samkvæmt mælingum varðskipsmanna statt inni í miðju hólfinu er varðskip kom að því. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi  

Slasaður skipverji um borð í Halla Eggerts fluttur með þyrlu til Reykjavíkur

Laugardagur 20. september 2003. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 11:20 og tilkynnti um slasaðan skipverja um borð í línubátnum Halla Eggerts sem gerður er út frá Flateyri.  Skipið var þá statt 40 sjómílur NA af Langanesi.   Eftir að læknir í þyrluáhöfn hafði haft samband við áhöfn skipsins og metið ástandið var ákveðið að sækja manninn.  Áhöfn TF-SIF var kölluð út BRAVO kl. 12:37 og og fór þyrlan í loftið kl. 13:24.   Hún hafði viðkomu á Höfn í Hornafirði kl. 14:45 til að taka eldsneyti og fór þaðan kl. 15:05.  Búið var að hífa manninn um borð kl. 16:12. Þyrlan hafði aftur viðkomu á Höfn í Hornafirði til að taka eldsneyti kl. 17:27 og var komin til Reykjavíkur um áttaleytið.  Lent var við flugskýli Landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurflugvöll en þar beið sjúkrabíll eftir hinum slasaða sem var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut í Reykjavík. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Sjúkraflug til Vestmannaeyja

Þriðjudagur 16. september 2003. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 17:59 vegna alvarlega veiks manns í Vestmannaeyjum.  Læknir á staðnum taldi nauðsynlegt að sækja hann strax með þyrlu.  Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 18:21. TF-LIF lenti í Vestmannaeyjum kl. 18:43 en ekki var hægt að flytja manninn strax.   Hélt þyrlan með hann til Reykjavíkur kl. 19:24.  Lent var við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 19:50 þar sem sjúkrabíll beið og flutti manninn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Tveir menn björguðust er bátur sökk á Þerneyjarsundi

Þriðjudagur 16. september 2003. Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar heyrðu neyðarkall frá skemmtibátnum Ingu Dís kl. 21:05 í kvöld en báturinn var þá staddur á Þerneyjarsundi.  Tilkynnt var að báturinn væri að sökkva.  Áhöfn TF-LIF var nýkomin úr sjúkraflugi til Vestmannaeyja og gat því brugðist skjótt við en þyrlan var komin í loftið kl. 21:23.  Stuttu eftir flugtak var tilkynnt að mennirnir hefðu komist upp á pramma og væru úr allri hættu.  TF-LIF sveimaði þó yfir svæðinu í 10 mínútur þar til ljóst var að ekki væri þörf á aðstoð. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Dómsmálaráðherra heimsækir Landhelgisgæsluna

Miðvikudagur 3. september 2003Dómsmálaráðherra kom til Landhelgisgæslunnar í vikunni, nánar tiltekið 1. september sl., ásamt nánustu samstarfsmönnum til að kynna sér starfsemi stofnunarinnar.  Heimsóknin hófst um borð í varðskipinu Tý.   Fyrst var skipið skoðað og síðan snæddur hádegisverður um borð.  Eftir það var haldið til höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar að Seljavegi 32 og haldin kynning á starfseminni í heild.  Stjórnstöð  og sjómælingasvið stofnunarinnar voru kynnt sérstaklega. Í sprengjudeildinni fór fram æfing  meðal annars með vélmenni sem eyddi sprengju.  Að því loknu var farið út á Reykjavíkurflugvöll þar sem aðstaða flugdeildar var skoðuð og síðan haldið í stutt flug með TF-LÍF.Mánaðardagurinn 1. september er merkisdagur í sögu Íslands en þann dag var fiskveiðilögsagan færð út í 12 sjómílur árið 1958 og 50 sjómílur árið 1972.  Svo skemmtilega vill til að Hafsteinn Hafsteinsson átti einnig 10 ára starfsafmæli sem forstjóri Landhelgisgæslunnar daginn sem ráðherra kom í heimsókn en hann hóf störf 1. september 1993. Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók meðfylgjandi myndir í heimsókninni.Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd: Landhelgisgæslan:  Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri  býður Björn Bjarnason dómsmálaráðherra velkominn.  Mynd: Landhelgisgæslan: Kristján Þ. Jónsson skipherra heilsar Stefáni Eiríkssyni skrifstofustjóra dómsmála- og löggæsluskrifstofu.  Ásdís Ingibjargardóttir skrifstofustjóri rekstrarskrifstofu og Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri ganga um borð. Mynd: Landhelgisgæslan: Þorsteinn Davíðsson aðstoðarmaður ráðherra, Björn Friðfinnson ráðuneytisstjóri, Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri, Kristján Þ. Jónsson skipherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skoða varðskipið Tý.   

Northern Challenge lokið

Þriðjudagur 2. september 2003. Northern Challenge 2003, æfingu sprengjueyðingarsveita, er nú lokið.  Landhelgisgæslan skipulagði og stjórnaði æfingunni en hana sóttu sérfræðingar frá dönskum og bandarískum hernaðaryfirvöldum auk sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar. Æfingin stóð í fimm daga í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og í Helguvík. Meginviðfangsefni æfingarinnar var að eyða og gera óvirkar sprengjur hermdarverkamanna.  Allir þáttakendur lýstu yfir ánægju með þjálfunina og sýndu áhuga á að koma á næstu æfingu sem haldin verður að ári.  Bandaríski sjóherinn sendi fréttamenn sem fylgdust náið með æfingunni allan tímann. Fulltrúar bandaríska sjóhersins, frá Evrópuherstjórninni, herlögreglan og íslenska lögreglan á Keflavíkurflugvelli fylgdust einnig með æfingunni en Landhelgisgæslan vinnur náið með lögregluyfirvöldum þar vegna öryggismála. Margir þátttakendanna höfðu nýlega verið við störf í Miðausturlöndum, þ.á.m. í Írak, þar sem sprengjur valda stöðugri ógn. Einn þátttakendanna hafði á orði að á æfingum sem þessum væri hægt að gera mistök og læra af þeim andstætt því sem gerist í raunveruleikanum þar sem smávægileg yfirsjón getur haft alvarlegar afleiðingar. Landhelgisgæslan átti gott samstarf við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins vegna æfingarinnar og við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli sem veitti ómetanlega aðstoð og aðstöðu svo hægt var að framkvæma æfinguna á sem raunverulegastan hátt. Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúiLandhelgisgæslu Íslands Mynd: Landhelgisgæslan- sprengjudeild: Sprengjusérfræðingur tekur röntgenmynd af bréfasprengju. Mynd: Landhelgisgæslan- sprengjudeild: Sprengjusérfræðingur býr sig undir að aftengja bílasprengju. Mynd: Landhelgisgæslan- sprengjudeild: Sprengjusérfræðingur ræðir við fórnarlamb sem heldur á bréfasprengju og þorir ekki að hreyfa sig. Næsta skref er að taka röntgenmynd af bréfinu.