Ofhlaðinn bátur og enginn að hlusta

Kallað eftir aðstoð á rás 16 með litlum árangri

Betur fór en horfðist í gær þegar bátur sem var á línuveiðum skammt norðvestur af Gufuskálum fór að taka inn á sig sjó. Tveir voru um borð og kölluðu þeir eftir aðstoð á rás 16 seint á fimmta tímanum. Nokkrir bátar voru í grenndinni en aðeins einn svaraði og var sá í fimm sjómílna fjarlægð. Þá var reynt að kalla á rás 11 í báta sem voru nær en ekkert svar fékkst. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ákvað því að að kalla út Björgu, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Rifi. 

Skömmu síðar tilkynnti skipstjórinn á bátnum að hann væri búinn að rétta sig af og sjór gengi ekki lengur inn. Þá var hann búinn að skera á línuna og annar bátur á leiðinni. Engu að síðar var ákveðið að Björg héldi sínu striki. Þegar hún nálgaðist bátinn um sexleytið kom í ljós að sjórinn farinn að ganga yfir lunninguna á honum og útlitið ekki gott. Eins og sjá má á þessum myndum var báturinn drekkhlaðinn og skuturinn nánast kominn í kaf. 


Mynd: Ægir Þór

Ákveðið að var að taka bátinn í tog og draga hann að Rifi en skipverjarnir fóru um borð í Björgu. Harðbotna slöngubátur björgunarsveitarinnar á staðnum fylgdi þeim áleiðis. Veiðarfærum var hent í sjóinn til að létta bátinn enn frekar og þá rétti hann sig sig betur við. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, var á leið vestur á firði til æfinga en lagði lykkju á leið sína þegar fréttist af því að báturinn ætti í vanda.


Drekkhlaðinn bátur. Búið var að henda veiðarfærum frá borði til að létta hann. Mynd: Ægir Þór

Það vekur bæði athygli og áhyggjur að bátar á svæðinu hafi ekki verið að hlusta á rás 16, sem er neyðarrás sjómanna. Þessi rás er eitt af mikilvægustu öryggistækjum sjófarenda en ef virk hlustun á hana er ekki fyrir hendi veitir hún falskt öryggi. Þá virðist líka ljóst að báturinn sem lenti í vandræðum var ofhlaðinn og ef hjálp hefði ekki borist í tæka tíð hefði hann að líkindum sokkið. Því er full ástæða til að hvetja sjófarendur til að gæta vel að því að taka ekki meiri afla um borð en báturinn getur borið.