Stjórnstöð LHG / Vaktstöð siglinga

Landhelgisgæslan stofnaði stjórnstöð sína 14. apríl 1954 að Seljavegi 32 í Reykjavík og var stöðin starfrækt þar samfellt í rúm 51 ár, eða til 13. maí 2005 þegar stjórnstöðin var flutt í björgunarmiðstöðina í Skógarhlið 14. Stjórnstöðin er elsta starfseining Landhelgisgæslunnar á eftir Sjómælingum. Allar beiðnir um hjálp eða aðstoð berast fyrst til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar sem setur í gang fyrstu aðgerðir eftir eðli máls hverju sinni. Boðin berast oftast nær gegnum fjarskiptabúnað strandastöðvaþjónustunnar eða frá Neyðarlínunni.

Eins og áður segir er öllum aðgerðum Landhelgisgæslunnar á sjó og í lofti stjórnað frá stjórnstöðinni. Þar er staðin vakt allan sólarhringinn árið um kring með 2 til 4 menn á vakt hverju sinni. Í Skógarhlíð 14 er einnig vaktstöð siglinga (VSS) sem mönnuð er og stjórnað af starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands. Til VSS telst m.a. strandastöðvaþjónustan og tilkynningarskylda íslenskra skipa ásamt öðrum verkefnum samkvæmt lögum um VSS. 

 Stjornstod4

Starfsmenn stjórnstöðvar / VSS fara með faglega stjórnun allra verkefna VSS samkvæmt þjónustusamningi við Siglingastofnun Íslands. Starfsmenn VSS sem þar voru fyrir urðu frá 1. maí 2006 einnig starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Í Skógarhlíð 14 eru fyrir auk stjórnstöðvar og aðalstöðva LHG, Neyðarlínan (112), fjarskiptamiðstöð (FML) og almannavarnadeild Ríkislögreglustjórans auk slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) og fleiri aðila.


Verkefni stjórnstöðvarinnar sem slíkrar byggir á lögum um Landhelgisgæslu Íslands (sjá undirkafla) og eru í meginatriðum fjórþætt: Hún er fjarskiptastöð fyrir varðskip og gæsluloftför,  björgunarstjórnstöð og hlekkur í hinu almenna öryggiskerfi landsins, fjareftirlits- og fiskveiðieftirlitsstöð, móttökustöð tilkynninga erlendra skipa vegna siglinga þeirra um lögsöguna og komu til hafnar á Íslandi vegna Schengen-samkomulagsins og Siglingaverndar, sem er eitt af verkefnum VSS (sjá nánar um verkefni VSS í undirkafla).

Um tölvuvædd fjareftirlitskerfi ein og sér berast sem dæmi um ein og hálf milljón tilkynninga á sólarhring þegar mest er. Verkefni stjórnstöðvar og VSS eru að nokkru leyti sambærileg, nánari skýringar má sjá í undirköflum. Varðstjórar stjórnstöðvar / VSS setja tafarlaust í gang aðgerðir ef hættuástand skapast eða er talið yfirvofandi,  í samræmi við alþjóðleg markmið sem sett eru fram í IAMSAR frá IMO. Stjórnstöðin / VSS svarar hverskonar fyrirspurnum um svæðatakmarkanir, umbúnað veiðarfæra og annað sem varðar fiskveiðar og margt fleira. Stjórnstöðin hefur um árabil verið sambandsaðili vegna björgunarsveitar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, en eins og kunnugt er verða miklar breytingar á þeirri starfsemi á árinu 2006 þegar varnarliðið hætti starfsemi á Íslandi.

Stjórnstöðin er búin sérstökum tölvu- og fjarskiptakerfum, og getur starfað sjálfstætt óháð almennum fjarskiptakerfum. Markmiðið er að tryggja eins og kostur er virkni stöðvarinnar og fjarskiptasamband milli stjórnstöðvarinnar og gæslueininganna þó almenn fjarskiptakerfi bregðist, innanlands eða milli landa. Stjórnstöðin getur haldið uppi fjarskiptasambandi við varðskipin eða erlendar björgunarstöðvar undir flestum kringumstæðum um eigin gervihnattastöðvar og stuttbylgju fjarskiptabúnað, auk búnaðs strandastöðva-þjónustunnar í VSS sem er öflugasti hluti fjarskiptakerfanna. Undirbúningur allsherjar endurnýjunar fjarskiptabúnaðar strandastöðvanna stendur nú yfir, þess er vænst að því ljúki á árinu 2007.

Oft heyra landsmenn fréttir af björgunarstarfi Landhelgisgæslunnar, bæði á sjó og landi, mönnum er bjargað úr sjávarháska eða veikir eða slasaðir sjómenn sóttir á haf út. Einnig má nefna sjúkraflug Landhelgisgæslunnar vegna umferðarslysa eða annarra óhappa hvar sem er á landinu.
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica