Varðskip LHG

Varðskip Landhelgisgæslunnar sinna mikilvægum þætti við öryggis- og löggæsluhlutverk stofnunarinnar. Leitast er við að hafa jafnan tvö varðskip á sjó og dreifa þeim um lögsöguna eftir verkefnum, álagi, veðri og aðstæðum hverju sinni. Auk þess að sinna hefðbundnu eftirliti á siglingu um hafið umhverfis Ísland eru skipin ávallt til taks til að bregðast við hverjum þeim verkefnum sem Landhelgisgæslan þarf að sinna, hvort sem um er að ræða löggæslu, öryggisgæslu, leit, björgun eða aðstoð, jafnt við sjófarendur sem landsmenn.

Varðskip Landhelgisgæslunnar eru þrjú: Þór, Ægir og Týr. Varðskipið Þór, afhentur árið 2011, Ægir, smíðaður árið 1968 og Týr, smíðaður árið 1975. Ægir og Týr eru systurskip, bæði 927 brúttórúmlestir og ná 19 sjómílna hraða á klukkustund.

Þór, hið nýja varðskip Landhelgisgæslunnar tekur mið af breyttum aðstæðum á heimshöfunum. Skipið hefur mikla dráttargetu og er vel búið til löggæslu- og björgunarstarfa. Einnig er skipið útbúið búnaði til hreinsunar á mengun og fjölgeislamæli til dýptarmælinga og leitar á hafsbotni. Varðskipið var afhent Landhelgisgæslunni í september 2011 en undirbúningur vegna komu þess hófst mun fyrr, m.a. með þjálfun áhafna. Eykur varðskipið Þór til muna viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar.

tyr-a-fullu

Í áhöfn skipanna eru um 18 menn en rými er um borð fyrir 65-70 ef þörf krefur. Skipin eru sérstaklega styrkt til siglinga í ís og vondum veðrum. Tvær aflvélar eru í öllum skipunum og eru 10-11 vatnsþétt hólf í hverju þeirra. Á skipunum er ein Bofors 40 mm fallbyssa, ásamt handvopnum. Í varðskipunum er öflugur slökkvibúnaður til þess að fást við eldsvoða um borð í skipum á rúmsjó. Má þar nefna sérstakar þrýstidælur, birgðir af slökkvifroðu og léttvatni, barka og blásara til reyklosunar. Í hverju skipi eru fjögur sett af reykköfunartækjum og eldheldur klæðnaður fyrir skipverja. Tvær stærðir Zodiac gúmbáta eru í hverju varðskipi. Bátarnir eru notaðir til að fara á milli skipa á rúmsjó og til lendingar í fjörum.

Tvær færanlegar rafstöðvar eru í hverju skipi og neyðarljósabúnaður sem hægt er að setja upp á slysstað á landi eða um borð í löskuðum skipum. Sérstakar sogdælur eru notaðar til að dæla úr lekum skipum og er afkastageta þeirra um 250 tonn. Sjúkrastofa er í hverju skipi með tilheyrandi útbúnaði og áhöldum, ásamt búnaði til sjúkraflutninga. Varðskipin eru meðal annars búin öflugum ratsjártækjum og gervihnatta fjarskiptatækjum sem eru tengd fjarskiptatölvu skipanna og gefur það möguleika á tölvufjarskiptum við hvern sem er, bæði á sjó og í landi. Þessi tæki tryggja öruggt fjarskiptasamband til og frá varðskipunum, óháð fjarlægð og radíóskilyrðum. Gervihnatta fjarskipatækin eru einnig notuð við fjareftirlit þar sem þau senda stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sjálfvirkt tilkynningu um staðsetningu, stefnu og hraða með stuttu millibili.

Samkvæmt lögum er varðskipunum ætlað að veita afskekktum stöðum þjónustu, en einnig heilum byggðarlögum þegar samgöngur bregðast vegna náttúruhamfara. Dæmi um hið síðastnefnda eru Vestmannaeyjagosið 1973 og snjóflóðin á Vestfjörðum árið 1995.

Tyr_a
Þetta vefsvæði byggir á Eplica