NULL
Miðvikudagur 21. maí 2003.
Bresk yfirvöld héldu nýlega alþjóðlega ráðstefnu um sprengjur, sprengiefni og sprengjueyðingu undir heitinu ,,Explosives World Conference“ . Ráðstefna þessi er haldin árlega og er vettvangur hernaðar- og öryggissérfræðinga til að ræða saman um sprengjueyðingu í heiminum. Sprengjusérfræðingi frá Landhelgisgæslunni var boðið að taka þátt í ráðstefnunni og flytja þar erindi.
Á ráðstefnunni var rætt um sprengjur frá hernaðar- og öryggissjónarmiði og var helsta umfjöllunarefnið hryðjuverkastarfsemi og aukin glæpatíðni, t.a.m. sprengjutilræði tengd stjórnmálum og trúarbrögðum um allan heim. M.a. voru haldin erindi um sprengjuhreinsun í Kenya, hermdarverkasprengjur og aðferðir hryðjuverkamanna þ.á.m. sjálfsmorðsárásir, gjöreyðingarvopn, faglega þjálfun sprengjusérfræðinga og rannsóknarstarfsemi. Þá var fjallað um hættu af gömlum sprengjum sambærilegum við þær sem finnast oft hér á landi og hvernig þær verða hættulegri eftir því sem þær verða eldri eins og nýlegar rannsónir hafa leitt í ljós. Þáttakendum gafst að auki kostur á að kynna sér nýjustu tæki og búnað til sprengjueyðingar og sýnd var virkni mismunandi tegunda sprengiefna.
Fyrirlestur fulltrúa Landhelgisgæslunnar snerist um sprengjueyðingu á Íslandi frá síðari heimstyrjöldinni til dagsins í dag. Fyrirlesturinn fékk góðar viðtökur og þáttakendur sýndu því mikinn áhuga hvernig sprengjueyðing á Íslandi hefur þróast. Það þótti athygli vert hversu mörgum verkefnum sprengjudeildin sinnir miðað við stærð hennar, sérstaklega í ljósi þess að hér á landi leynast ósprungnar sprengjur á stórum svæðum bæði á sjó og landi og sprengjudeildin sér að auki alfarið um sprengjueyðingu fyrir Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.
Fulltrúi Landhelgisgæslunnar taldi ráðstefnuna gagnlega í ljósi ástandsins í heiminum í dag og mjög mikilvægan vettvang fyrir sérfræðinga frá fjölmörgum þjóðlöndum til að bera saman bækur sínar.
Landhelgisgæslu Íslands