Íslenska íshokkílandsliðið og lið kanadískrar flugsveitar sem sinnir loftrýmisgæslu öttu kappi
Það er kunnara en frá þurfi að segja að íshokkí er þjóðaríþrótt Kanada og því ætti ekki að koma á óvart að liðsmenn kanadísku flugsveitarinnar sem sinnir loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins um þessar mundir hér við reimi á sig skautana eftir því sem við verður komið. Sveitin hefur æft með íslensku íþróttafólki, þar á meðal liði sem meðal annars er skipað starfsfólki Slökkvliðs höfuðborgarsvæðsins og Landhelgisgæslunnar.
Í gærkvöld fór svo fram sannkallaður stórleikur þegar Kanadamennirnir léku vináttuleik við íslenska íshokkílandsliðið í Egilshöll.Kanadamenn skoruðu fyrstu tvö mörkin í leiknum en þá hættu Íslendingar að sýna gestrisni og skoruðu þrjú mörk í röð. Leikurinn hélst svo jafn í 4-4 en þá stungu Íslendingar Kanadamenn af. Lyktaði leiknum með stórsigri íslenska liðsins, 16-7. Starfsfólk Landhelgisgæslunnar í Keflavík fjölmennti á viðburðinn sem og liðsmenn kanadísku flugsveitarinnar.
Í síðastliðinni viku buðu Kanadamennirnir flugnemum í flugskóla Keilis að koma í heimsókn í flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli í þeim tilgangi að skoða og fræðast um CF-188 Hornet-þoturnar sem notaðar eru við loftrýmisgæsluna.
Nemendurnir spurðu margra spurninga sem kanadísku flugmennirnir svöruðu eftir bestu getu. Þá fengu nemarnir að líta í stjórnklefann og skoða þann búnað sem flugmennirnir klæðast. Ekki nóg með það heldur var einn þeirra klæddur upp í búninginn svo hópurinn fengi nasaþefinn af því hvernig er að sitja við stýrið í herþotu. Gerður var góður rómur að þessari heimsókn sem þótti vel heppnuð í alla staði.