Siglingin tók tæpan sólarhring.
19.06.2018 Kl: 12:38
Varðskipið Þór er nú komið til Reykjavíkur með ísfisktogarann
Akurey AK-10 sem varð vélarvana djúpt vestur af Vestfjörðum í gærmorgun. Þegar
beiðni um aðstoð barst Landhelgisgæslunni, á sjöunda tímanum í gærmorgun, var
Þór í tæplega 70 sjómílna fjarlægð en hann var þá staddur á Bíldudal. Um
klukkan 13:00 var Þór kominn á vettvang og greiðlega gekk að koma taug á milli
skipanna. Að því búnu hélt varðskipið áleiðis til Reykjavíkur með Akurey í togi
en siglingin til Reykjavíkur heppnaðist vel og tók tæpan sólarhring. Þór kom
með Akurey AK-10 að Engey á tólfta tímanum í dag en þá tóku dráttarbátar
Reykjavíkurhafnar við og drógu skipið að bryggju.
Aðgerðir gengu afar
vel enda hefur áhöfnin á Þór góða reynslu og þekkingu á verkefnum sem þessum.
Eftir að Akurey var komin til hafnar í Reykjavík í dag hélt varðskipið Þór
áfram til eftirlits- og löggæslustarfa.
Þór kemur með Akurey AK-10 til Reykjavíkur. Ljósmynd: Jón Páll Ásgeirsson.