Skútan var stödd 155 sjómílur suðaustur af Höfn í Hornafirði þegar beiðni um aðstoð barst.
29.6.2018 Kl: 14:10
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk beiðni um aðstoð á
tíunda tímanum í gær frá kanadískri skútu sem stödd var 155 sjómílur suðaustur
af Höfn í Hornafirði en þar um borð var maður sem þurfti að komast undir
læknishendur. Skútan var stödd 115 sjómílur vestur af færeysku eyjunni Mykines
og var ákveðið að færeysk björgunarþyrla héldi á staðinn. Þyrlan var komin á
vettvang um klukkustund síðar en vegna lélegs skyggnis og sjólags tókst ekki að
hífa manninn um borð í þyrluna þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Skútan hélt því
í átt til Hafnar í Hornafirði og áhöfn hennar óskaði eftir því að bátur héldi
til móts við hana þar sem erfiðlega hafi gengið að koma manninum um borð í
þyrlu. Björgunarskipið Ingibjörg, á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar,
hélt á ellefta tímanum í morgun til móts við skútuna og mun flytja manninn til
Hafnar í Hornafirði. Mikil þoka er á svæðinu og er flugvöllurinn á Höfn
lokaður. Landhelgisgæslan mun áfram fylgjast með framvindu aðgerðanna í dag og
hefur þyrlu til taks ef þokunni léttir. Áætlað er að björgunarskipið Ingibjörg
verði komið að skútunni síðdegis.