Sérstakrar heilbrigðisyfirlýsingar skipa krafist vegna COVID-19

6. mars, 2020

Vegna aðstæðna nú ber skipstjórum og skipslæknum, ef þeir eru um borð, að fylla út sérstakt eyðublað sem getur gefið upplýsingar um COVID-19 smit.

6.3.2020 Kl: 16:17

Öll skip sem koma til landsins erlendis frá þurfa nú að
veita Landhelgisgæslunni sérstaka heilbrigðisyfirlýsingu vegna COVID-19 áður en
þau fá heimild til að koma til hafnar. Undir venjulegum kringumstæðum ber
skipum að senda Landhelgisgæslunni almenna heilbrigðisyfirlýsingu sem og aðrar
upplýsingar.

Vegna aðstæðna nú ber skipstjórum og skipslæknum, ef þeir
eru um borð, að fylla út sérstakt eyðublað sem getur gefið upplýsingar um
COVID-19 smit.

Skipum verður ekki hleypt til hafnar nema eyðublaðið berist
Landhelgisgæslunni. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sér til þess að eyðublaðið er sent til skipanna. Það má sjá hér.

Vakni grunur um sýkingu af völdum COVID-19 um borð í skipi,
tilkynnir Landhelgisgæslan málið til sóttvarnalæknis. Í slíkum tilfellum hafa sóttvarnalæknir,
lögregla, Landhelgisgæslan, tollgæsla, hafnaryfirvöld hluteigandi hafnar,
Samgöngustofa og skipstjóri samráð sín á milli um að hleypa farþegum ekki frá
borði auk þess sem skipinu verður ekki heimilt að koma að bryggju á meðan
greining fer fram.

Það er svo í höndum sóttvarnalæknis að taka ákvörðun um
næstu skref í samráði við aðra viðbragðsaðila.

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins er væntanlegt til Reykjavíkur
á mánudag. Landhelgisgæslan telur ríka
ástæðu til að herða eftirlit með skipakomum til landsins á næstunni í samráði við
sóttvarnalækni, Samgöngustofu, hafnaryfirvöld og aðra viðbragðsaðila.