Strandveiðibátur í grenndinni kom til aðstoðar.
6.8.2020 Kl: 15:23
Áhöfnin á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út á
þriðja tímanum í dag vegna vélarvana strandveiðibáts sem rak að skeri við
Ingólfsgrunn á Húnaflóa. Þyrlan var á flugi við Snæfellsnes þegar útkallið
barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Annar strandveiðibátur í grenndinni var
einnig beðinn um að halda á staðinn til aðstoðar. Einn var um borð í bátnum og
tókst honum að setja akkeri bátsins út sem kom í veg fyrir að báturinn steytti
á skerinu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á svæðið þegar klukkuna
vantaði fimm mínútur í þrjú. Þyrlan var til taks á meðan báturinn var tekinn í
tog af strandveiðibátnum sem kom til aðstoðar. Vel gekk að koma línu á milli
bátanna en þeir halda á Drangsnes.
Þetta var í annað sinn í dag sem þyrlusveit
Landhelgisgæslunnar er kölluð út en skömmu fyrir hádegi var óskað eftir þyrlu
vegna manns í sjónum við Álftanes. Maðurinn fannst um það leyti sem þyrlan var
að hefja sig til flugs frá Reykjavíkurflugvelli.