Á þessum tíma árs fer endurnþjálfun þyrlusveitar með nætursjónaukum fram.
1.9.2020 Kl: 21:05
Á þessum árstíma er algengt að sjá þyrlu Landhelgisgæslunnar á sveimi seint að kvöldi því þegar hausta tekur hefst endurþjálfun þyrlusveitar með nætursjónaukum. Sjónaukarnir eru afar mikilvægir þyrlusveitinni við björgunaraðgerðir í myrkri og eðli málsins samkvæmt er þýðingarmikið að dusta rykið af þeim eftir bjartar sumarnætur. Þeir magna upp það ljós sem fyrir þeim verður en best virka þeir við tungl- og stjörnuskin. Þá eru þeir þannig útbúnir að verði of skært ljós fyrir þeim hætta þeir að virka.
Af þeim sökum þarf lýsing í og við þyrlu að vera þannig úr garði gerð að hún trufli ekki búnaðinn. Meðfylgjandi myndir sýna frá fyrstu sjóbjörgunaræfingu áhafnarinnar á Tý í myrkri þetta haustið ásamt þyrlusveit. Að auki er mynd úr sjónaukanum sem tekin var á vettvangi slyss um helgina. Þar má sjá útsýni áhafnarinnar úr sjónaukunum.
Mynd úr Tý: Guðmundur St. Valdimarsson.
Sérstök lýsing er um borð í varðskipinu þegar nætursjónaukaæfingarnar fara fram.
Útsýni þyrluflugmanna í útkalli helgarinnar.
Flugmaður með nætursjónauka. Mynd: Árni Sæberg.