Fólkið var afar þakklátt fyrir aðstoðina og viðtökurnar um borð.
17.9.2020 Kl: 11:41
Þrátt fyrir að áhöfnin á sjómælingaskipinu Baldri sé að stærstum
hluta bundin við sjómælingar að sumri og hausti kemur það fyrir að áhöfnin
sinni útköllum á sviði leitar og björgunar. Áhöfnin er þjálfuð til slíkra verka og Baldur vel búinn til björgunarstarfa.
Ádögunum barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beiðni um að
sækja þyrfti göngufólk inn á Veiðileysufjörð. Skipið var á landleið til
Ísafjarðar eftir nokkurra daga mælingar í Jökulfjörður og var statt út af
Grunnavík. Farþegabátur sem átti að sækja fólkið sóttist ferðin seint yfir
djúpið enda norðaustan 15 m/s og kröpp alda. Um var að ræða erlent par, reynt
útivistarfólk og vel búið, sem var á göngu á Hornströndum.
Þau höfðu m.a. fengið að láni talstöð svo unnt var að vera í
sambandi við þau þegar áhöfnin nálgaðist. Léttbátur var sendur eftir fólkinu
sem leitaði skjóls í tjaldi á meðan.
Þrátt fyrir hvassviðri gekk vel að ferja þau um borð í
Baldur. Farið var með fólkið til Ísafjarðar og á leiðinni þangað var mjög
hvasst í djúpinu og lá vindur í norðaustan 20 m/s og fór upp í 30 m/s í hviðum.
Fólkið var afar þakklátt fyrir aðstoðina og viðtökurnar um borð.
Léttbátur Baldurs ferjaði fólkið um borð.
Fólkið var vant og vel búið.
Stubbur, léttbátur Baldurs, sjósettur.
Fólkið var afar þakklátt fyrir aðstoðina.
Fólkið var sótt í Veiðileysufjörð.
Baldur við mælingar í Breiðafirði.