Um 400 sprengjusérfræðingar frá 14 löndum eru staddir hér á landi vegna Northern Challenge.
26.9.2022 Kl: 12:26
Um
400 sprengjusérfræðingar frá 14 löndum eru staddir hér á landi vegna Northern
Challenge sem er árleg æfing sprengjusérfræðinga. Um er að ræða alþjóðlega
æfingu Atlantshafsbandalagsins sem séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar
skipuleggur.
Á
æfingunni eru viðbrögð við hryðjuverkum æfð með því að veita þátttakendum færi
á að aftengja samskonar sprengjur og fundist hafa víða um heim. Þetta er í
tuttugasta og fyrsta sinn sem Northern Challenge er haldin. Æfingin fer að
mestu leyti fram innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli en einnig í
Helguvík og í Hafnarfirði.
Sérhæfð
stjórnstöð hefur jafnframt verið sett upp á öryggissvæðinu vegna æfingarinnar
en það er í samræmi við alþjóðlegt vinnulag Atlantshafsbandalagsins.
Æfingin
veitir sprengjusérfræðingum, sem koma hvaðanæva að úr heiminum, einstakt
tækifæri til að samhæfa aðgerðir auk þess að miðla reynslu og þekkingu sinni
til annarra liða. Northern Challenge hefur notið vinsælda á undanförnum árum og
hefur skipað sér sess sem ein mikilvægasta æfing sprengjusérfræðinga innan Atlantshafsbandalagsins.
Æfingunni lýkur 7. október.